Flestir Íslendingar bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum. Á eftir þeim njóta Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata mests trausts.
48,5 prósent spurðra sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars, og 46,7 prósent til Katrínar. 37 prósent sögðust bera mikið traust til Dags og 32,3 prósent til Birgittu. Birgitta er jafnframt eini stjórnmálaleiðtoginn sem nýtur meira trausts nú en í júní 2013, fyrir utan þá sem hafa ekki verið mældir fyrr.
Fleiri bera mikið traust til Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, en til beggja leiðtoga stjórnarflokkanna, Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. 24,9 prósent treysta Guðmundi, en 22,8 prósent treysta Bjarna og 17,5 prósent Sigmundi Davíð.
Jafnframt er fjöldi þeirra sem segjast bera lítið traust til Bjarna og Sigmundar meiri en hjá öðrum stjórnmálaleiðtogum. 57,9 prósent segjast bera lítið traust til Bjarna og 63,2 prósent treysta Sigmundi Davíð illa.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, rekur lestina í traustsmælingunum, 14,9 prósent segjast treysta honum vel.
Miklar sveiflur milli kannana
MMR mældi traust til stjórnmálaleiðtoga í febrúar í fyrra og í júní árið 2013, skömmu eftir að ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna var mynduð. Árið 2013 sögðust 33,8 prósent aðspurðra treysta Bjarna vel, og 48,8 prósent sögðust treysta Sigmundi Davíð vel. Í fyrra hafði traust til þeirra beggja minnkað talsvert, en þá sögðust tæp 25 prósent treysta Bjarna en traust á Sigmundi var komið niður í 23,2 prósent. Í mælingunum nú er traust til Bjarna 22,8 prósent og traust til Sigmundar 17,5 prósent.
Hafa verður í huga að vikmörk í könnunum sem þessum geta verið allt að 3,1 prósent. 1060 einstaklingar svöruðu könnuninni, sem var framkvæmd frá 30. mars til 8. apríl. Miðað við það eru breytingar á trausti til Bjarna milli kannana innan marka.
Einnig hafa orðið miklar breytingar á vantrausti til leiðtoga stjórnarflokkanna frá því að þeir tóku við störfum. Í júní 2013 sögðust 43,3 prósent bera lítið traust til Bjarna, og 27,6 prósent báru lítið traust til Sigmundar. Í febrúar í fyrra hafði þeim sem vantreystu Bjarna fjölgað í 54,1 prósent og þeim sem báru lítið traust til Sigmundar hafði fjölgað enn meira, í 58,2 prósent. Í þessari könnun segjast 57,9 prósent bera lítið traust til Bjarna en 63,2 prósent bera lítið traust til Sigmundar.
Dagur er mældur sem stjórnmálaleiðtogi í fyrsta sinn. MYND/BIRGIR ÞÓR
Dagur miklu vinsælli en Árni Páll
Athygli vekur að samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er miklu vinsælli en Árni Páll Árnason, formaður flokksins, samkvæmt könnuninni. Aldrei hafa jafn fáir sagst bera mikið traust til Árna Páls og nú síðan hann tók við sem formaður flokksins, eða 14,9 prósent. Á sama tíma mælist traust til Dags 37 prósent, en þetta er í fyrsta sinn sem traust og vantraust til hans er mælt í könnunum MMR.
Samkvæmt könnuninni hafa aldrei fleiri borið lítið traust til Árna Páls en nú, en alls 53,6 prósent aðspurðra sögðust treysta honum frekar eða mjög lítið. Um þriðjungur aðspurðra sögðust treysta Degi frekar eða mjög lítið.
Ef litið er aftur til mælinga sem gerðar voru rétt eftir síðustu kosningar sést að þeim hefur fækkað sem segjast treysta Katrínu Jakobsdóttur vel, en skömmu eftir kosningar mældist hún með 62,5 prósenta traust og 17,2 prósenta vantraust. Katrín hefur þó frá því að hún var mæld fyrst verið sá leiðtogi sem fæstir segjast vantreysta. 26,3 prósent segjast bera lítið traust til hennar nú, en aðeins Ólafur Ragnar er nálægt henni í þeim mælingum. 29,2 prósent segjast bera lítið traust til hans. Birgitta Jónsdóttir og Guðmundur Steingrímsson eru á svipuðum slóðum í vantraustsmælingum, 37,2 og 37,9 prósent segjast bera lítið traust til þeirra.