Danskir trúarbragðafræðikennarar vilja að skopmyndirnar af Múhameð spámanni, sem Jyllands-Posten birti árið 2005, verði hluti námsefninu í dönskum grunnskólum og það fyrr en síðar. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins, DR, og er haft eftir formanni sambands trúarbragðafræðikennara, John Rydahl.
Rydahl segir að teikningarnar og málið allt sé tilvalið efni fyrir trúarbragðafræðikennslu, og hann undrast að þær hafi enn ekki dúkkað upp í skólabókum.
Teikningarnar hafa valdið mikilli úlfúð síðan þær birtust í Jyllands-Posten árið 2005, þeim var harðlega mótmælt víða eftir birtinguna og þær hafa verið sagðar ástæður hryðjuverka.
Þessi umræða skýtur nú upp kollinum, skömmu eftir hryðjuverkin í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði. Þau eru tengd teikningum af Múhameð spámanni líka, því talið er að hryðjuverkin hafi meðal annars beinst gegn sænska teiknaranum Lars Vilks, enda var hann á fundi um tjáningarfrelsi í menningarhúsinu á Austurbrú þegar ráðist var á fundinn. Hann er nú í felum og segist hættur að teikna skopmyndir.
Samkvæmt danska menntamálaráðuneytinu eru teikningarnar ekki hluti af námskrá en margir skólar velji að fjalla um málið í félagsfræði-, trúarbragðafræði- og sögutímum.
Skiptar skoðanir eru þó um málið og formaður félags sögu- og félagsfræðikennara í Danmörku er mótfallinn því að teikningarnar verði settar í skólabækur. Það geti í raun lokað á umræður um tjáningarfrelsi vegna þess að í skólastofunum sitji börn sem telji að teikningar af Múhameð séu forkastanlegar. Dennis Hornhave Jacobsen segir að það sé algjörlega réttlætanlegt að fjalla um krísuna í tengslum við teikningarnar og jafnvel sýna börnum þær, en það eigi að vera algjörlega á valdi hvers kennara að gera það.