Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði, meðal annars með því að styðja við leigumarkað, segir að það eigi að fjármagna félagslega leigukerfið með stofnfjárframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt um 30 prósent af stofnkostnaði. Þetta á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum svo tekjulægri fjölskyldur geti fengið leiguhúsnæði til lengri tíma. Í yfirlýsingunni segir: „Slíkt framlag ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25 prósent af tekjum.“
Í Hagsjá Landsbankans, sem birt var í gærmorgun, er þetta atriði tekið sérstaklega fyrir. Þar segir að ef miðað sé við þau 300 þúsund króna mánaðarlaun sem tekist var á um í nýgerðum kjarasamningum megi húsaleiga á árinu 2018 ekki fara yfir 75 þúsund krónur á mánuði eigi þetta markmið að nást. „Stefnt er að því að hækka húsnæðisbætur á árunum 2016 og 2017 með því að hækka bæði grunnfjárhæð og frítekjumark. Þessi markmið um upphæð húsaleigu eru háleit í ljósi þess hver byggingakostnaður er í dag. Þrátt fyrir að húsaleigubætur hækki og byggingarkostnaður lækki með nýjum reglum verður eflaust erfitt að ná þessum markmiðum, jafnvel þótt íbúðir verði af minna tagi.“
Trúir því einhver að hægt verði að leigja íbúð á höfuðborgarsvæðinu fyrir 75 þúsund krónur árið 2018?