Donald Trump, auðkýfingur og frambjóðandi í forvalskosningum Repúblikanaflokksins til forsetaefnis flokksins, svaraði í kappræðum í gær ásökunum um kvenhatur með því að segja andlit Carly Fiorina, eina kvenframbjóðandans, vera fallegt og að hún sé falleg kona. Ummælin lét Trump falla eftir að stjórnendur kappræðanna rifjuðu upp viðtals hans við tímaritið Rolling Stone. Þar sagði Trump um mótframbjóðanda sinn Fiorina: „Lítið á þetta andlit. Myndi einhver kjósa það? Getur þú ímyndað þér að þetta sé andlit næsta forseta Bandaríkjanna?“
Frá því að kosningabarátta Trump hófst hefur hann ítrekað verið sakaður um kvenfyrirlitngu. Þegar Fiorina var spurð í gær um álit sitt á ummælum Trump, en hún er eini kvenmaðurinn í hópi 16 frambjóðenda Repúblikana, sagðist hún telja að konur um öll Bandaríkin hafi heyrt skýrt hvað Trump sagði. Með orðum sínum vakti Fiorina mikla hrifningu áhorfenda í sjónvarpssal, að því er segir í umfjöllun The Guardian um kappræðurnar og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.
Í umfjöllun New York Times um kappræðurnar segir að frambjóðendur hafi skipst á að skjóta á Trump, sem mælist langvinsælastur í skoðanakönnunum. Þar þykir Fiorina hafa tekist best til og sjá mátti að orð hennar fengu á Trump. Samkvæmt umfjöllun bandaríska blaðsins þá reyndu stjórnendur kappræðanna, sem voru á sjónvarpsstöðinni CNN, ítrekað að egna einum frambjóðanda gegn öðrum með spurningum sínum. Flestir brugðust þó við með því að beina spjótum sínum sérstaklega að Trump.
Stjórnendur CNN fóru um víðan völl og meðal málefna voru innflytjendamál, kjarnorkusamningurinn við Íran, hjónabönd samkynhneigðra og fjármögnun ríkisins á barneignaorlofum. Í síðastnefnda málaflokknum kepptust frambjóðendur við að vera sem harðast á móti, að því er The Guardian greinir frá.