"Við fyrstu sýn virðist vera sem svo að þessi mikilvæga stofnun, sem á fyrst og fremst að vinna fyrir fólk sem stendur höllum fæti, sé nánast að reyna að fá skjólstæðinga sína upp á móti sér, í stað þess að vinna með þeim." Þetta segir Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, um viðrögð Tryggingastofnunar ríkisins við nýju áliti Umboðsmanns Alþingis.
Fréttablaðið greindi í gær frá áliti umboðsmanns, þar sem hann segir að Tryggingastofnun hafi án lagastoðar sett tiltekin skilyrði fyrir örorkubótum aftur í tímann. Í tilkynningu frá Tryggingastofnun vegna álitsins segir: "Telji einhver að réttur hafi verið á sér brotinn vegna synjunar á afturvirkum greiðslum er bent á að hægt er að óska endurupptöku á málinu hjá stofnuninni." Þannig virðist Tryggingastofnun ekki ætla að hafa frumkvæði að því að leiðrétta fyrri ákvarðanir sínar. Vísir greinir frá málinu.
Málið snýst um orðalag í viðbótarskilyrðum Tryggingastofnunar fyrir greiðslu örorkubóta tvö ár aftur í tímann. Þar er kveðið á um "sérstækar aðstæður," sem Umboðsmaður Alþingis telur ekki eiga sér stoð í lögum. Tryggingastofnun hefur þannig synjað umsóknum um afturvirkar örorkulífeyrisbætur á þeim rökum að skilyrðið um "sérstakar aðstæður" sé ekki uppfyllt.
Upphaf málsins má rekja til synjunar Tryggingastofnunar á bótabeiðni þroskaskertrar konu, en stofnunin dró í efa að fötlun hennar væri meðfædd og gaf henni ekki færi á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.
Í áðurnefndri tilkynningu Tryggingastofnunar segir: "Ábending umboðsmanns Alþingis að orðalagið "sérstakar aðstæður" eigi sér ekki stoð í lögum er réttmæt. Munum við þegar bregðast við þeirri ábendingu og lagfæra texta bréfanna. Synjunin á afturvirkum greiðslum örorkulífeyris byggist enda ekki á því hvort um "sérstakar aðstæður" sé að ræða heldur því hvort skilyrði mats á örorku sé uppfyllt."
Í Fréttablaðinu var rætt við Daníel Isebarn Ágústsson, lögmann Öryrkjabandalags Íslands, sem telur að hundruð öryrkja hafi verið snuðuð um bætur vegna þessa. Þá hafi Tryggingastofnun þverskallast við endurteknum ábendingum um að verklag stofnunarinnar væri andstætt lögum.
Varaformaður Sjálfsbjargar gagnrýnir vinnubrögð Tryggingastofnunar harðlega. "Þessi framkoma stenst auðvitað enga skoðun. Stofnunin hefur viðurkennt brot sitt, og þá verður hún auðvitað að bæta fyrir það. Ég hef talað við nokkra lögfræðinga í morgun og þeir eru allir á sömu skoðun. Ef stofnunin hefði sett málið í einhvern ágreining, verið ósammála þessu, þá hefði hún mögulega geta staðið á þessarri afstöðu. En víst hún viðurkennir þetta, þá á hún að bæta fyrir þetta," segir Bergur Þorri Benjamínsson.
Hann segir mikillar reiði gæta á meðal sinna skjólstæðinga vegna málsins. "Okkar fólk hefur gert þá sanngjörnu kröfu að fá allar upplýsingar strax og því sé leiðbeint í gegnum kerfið, af því að það stendur höllum fæti. Það hefur verið þessi togstreita um hvort Tryggingastofnun sé að upplýsa fólk um sinn rétt eða ekki, hvort verið sé í raun að leiðbeina fólki í gegnum kerfið eða ekki. Þarna er því miður komin staðfesting á því að menn hafa ekki leiðbeint fólki rétta leið, þegar stofnunin er að túlka reglur eftir sínu höfði er hún að beita fólk aflsmunum. Stofnunin er einfaldlega að segja við okkur að við getum bara talað við höndina."