Allir sem ferðast flugleiðis kannast við öryggiseftirlitið í flugstöðvunum. Úr skónum og yfirhöfninni, burt með beltið og armbandsúrið, tölvuna og símann upp úr handtöskunni. Eigandinn fer svo í gegnum málmleitarhlið en skórnir (víðast hvar), handtaskan og allt hitt gegnum sérstakt gegnumlýsingartæki. Sjáist þar eitthvað sem vekur grunsemdir er eigandinn tekinn afsíðis og allur handfarangur skoðaður. Auk þess eru svo teknar svokallaðar stikkprufur, þar sem einstaklingarnir eru valdir af handahófi. Allt tekur þetta bjástur sinn tíma enda á mörgum flugvöllum orðið þannig að biðin í öryggisleitinni tekur drjúgan tíma, jafnvel lengri en við innritunina.
Allt breyttist eftir hryðjuverkin 11. september 2001
Þótt öryggiseftirlit hafi vissulega verið til staðar fyrir 11. september 2001 varð flestum ljóst að fram að þeim tíma hafði eftirlitið verið allt of lítið og tilviljanakennt. Atburðirnir í Bandaríkjunum þennan örlagaríka dag opnuðu augu heimsins fyrir þessari ógn þar sem enginn er óhultur. Og við því þyrfti að bregðast til að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig.
Flugfarþegar urðu strax varir við breytingar. Í nánast öllum flugstöðvum voru skyndilega komnar nýjar reglur, farþegar urðu að fara gegnum svokallaða vopnaleit, allur handfarangur gegnumlýstur, hertar reglur um vökva í handfarangri fylgdu í kjölfarið, tölvur og símar skoðað sérstaklega og svo framvegis. Eftir að Richard Reid, skósprengjumaðurinn eins og hann var kallaður, reyndi að sprengja farþegavél, sem var á leið frá París til Miami, beindist athygli öryggiseftirlitsins líka að skótaui farþega. Richard skósprengjumaður var með sprengiefni í strigaskóm sínum sem honum tókst ekki að kveikja í og aðrir farþegar yfirbuguðu hann og komu þannig í verk fyrir að honum tækist ætlunarverk sitt.
960 manns í öryggiseftirlitinu á Kastrup
Af öllum flugvöllum á Norðurlöndum er umferðin mest um Kastrup við Kaupmannahöfn og eykst ár frá ári. Í fyrra fóru um völlinn tuttugu og sex og hálf milljón farþega, hafði þá aukist um rúm tíu prósent frá árinu áður.
Stærstur hluti þeirra sem um flugvöllinn fara eru millilandafarþegar, í fyrra rúmlega tuttugu og tvær milljónir. Á tímabili eftir að reglurnar um öryggisleitina voru hertar þurftu farþegar stundum að bíða drjúga stund eftir að röðin kæmi að þeim. Svarið við því var að fjölga hinum svokölluðu leitarhliðum og jafnframt starfsfólki. Tölurnar tala sínu máli: árið 2002 unnu 360 manns við öryggiseftirlitið en í dag eru þessir starfsmenn tæplega 1000 og þyrftu helst að vera fleiri segir starfsfólkið.
Einmanna flugfarþegi á gangi á Kastrup-flugvelli. Mynd: EPA
Eftirlitið kostar sitt, á síðasta ári var kostnaðurinn við öryggisleitina á Kastrup rúmlega hálfur milljarður króna (tæpir tíu milljarðar íslenskir) og eykst stöðugt. Þetta eru miklir peningar og þegar horft er til þess að Kastrup er langt frá því að vera í hópi fjölförnustu flugvalla heims (ekki í hópi 30 stærstu) er ljóst að heildarkostnaður vegna öryggisleitar á flugvöllum um víða veröld er gríðarlegur. Þennan kostnað, sem engin leið er að reikna út, bera flugfarþegar.
Hvað með öryggið í röðinni?
Danskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað talsvert um öryggismál á flugvöllum, einkum Kastrup. Ástæðan er sú að 1. apríl var lokað þeim hluta flugstöðvarinnar sem notaður var fyrir innanlandsflug. Farþegar á leið til Esbjerg fara nú í gegnum sömu öryggisleitina og þeir sem ætla til Moskvu svo dæmi sé tekið. Flugvallaryfirvöld segja þessa breytingu gerða í hagræðingarskyni og fullyrða að biðtíminn við eftirlitið lengist ekki en öryggisleitarhliðum var jafnframt fjölgað við þessa breytingu.
Í fyrra lagði öryggisleitarfólk á Kastrup hald á rúmlega 100 tonn af ávaxtasafa, gosdrykkjum, sjampói, fljótandi sápu og fleiru af svipuðu tagi.
Ekki eru allir jafn trúaðir á yfirlýsingar flugvallaryfirvaldanna og Arne Boelt, borgarstjóri í Hjørring á Jótlandi, skrifaði Mette Frederiksen dómsmálaráðherra bréf sem fjölmiðlar hafa greint frá og vakið hefur athygli. Borgarstjórinn segir það gott og blessað að fara í gegnum allt þetta öryggiseftirlit en spyr svo „hvað með röðina áður en komið er að eftirlitinu, þar eru kannski 1500 manns? Enginn veit hvað allt það fólk ber á sér.“ Boelt segist hafa farið að hugsa um þetta þegar hann stóð í hópi 15 annarra danskra borgar-og bæjarstjóra í röðinni. Hann sagðist líka hafa séð fimm danska þingmenn og einn ráðherra í þessari sömu röð. „Borgarstjórar, þingmenn og ráðherrar eru ekki merkilegri en annað fólk“ segir borgarstjórinn í bréfinu en þetta hafi eigi að síður orðið til þess að hann fór að velta öryggismálunum fyrir sér.
Ber öryggiseftirlitið árangur?
Þessa spurningu lagði eitt dönsku blaðanna fyrir nokkra menn, þar á meðal Hans Jørgen Bonnichsen fyrrverandi yfirmann dönsku rannsóknarlögreglunnar. Hann svaraði því til að slíkt hefði í raun aldrei verið metið. „Það er einhvernveginn alltaf verið að bregðast við því sem hefur gerst,“ sagði Bonnichsen og nefndi bæði 11. september og skósprengjumanninn í þessu samhengi. „Þegar eitthvað gerist er krafist nýrra og strangari reglna, enginn vill tala um hvort allt þetta eftirlit skili árangri.“
Vegabréfaeftirlit á Kastrup. Mynd: EPA
Í fyrra lagði öryggisleitarfólk á Kastrup hald á rúmlega 100 tonn af ávaxtasafa, gosdrykkjum, sjampói, fljótandi sápu og fleiru af svipuðu tagi. Tölur um naglaklippur, lítil skæri og fleira af svipuðu tagi hafa ekki verið gerðar opinberar en nema tugum eða hundruðum kílóa að mati Bonnichsens.
Hans Christian Stigaard sérfræðingur í flugöryggismálum og fyrrverandi yfirmaður á Kastrup tekur í sama streng. Hann segir að stjórnmálamenn vilji sífellt nýjar og strangari reglur, án þess kannski að metið sé hvaða árangri slíkt skili. Dönsk flugmálayfirvöld séu bundin af reglum Evrópusambandsins og geti ekki vikið frá þeim. Magnus Heunicke samgönguráðherra Danmerkur greindi frá því í blaðaviðtali að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ynni nú að endurskoðun öryggisreglna á flugvöllum, hvenær þeirri endurskoðun ljúki gat ráðherrann ekki upplýst um.
Hans Jørgen Bonnichsen fyrrverandi yfirmaður rannsóknarlögreglunnar og Hans Christian Stigaard sérfræðingur í flugöryggismálum voru sammála um nauðsyn öryggiseftirlits og vopnaleitar en það starf þyrfti að vera markvisst. Stigaard kvaðst þekkja 82 ára gamla konu sem væri með stál í mjaðmarlið. Þessi kona ferðast oft á milli Álaborgar og Kaupmannahafnar. Hún er alltaf tekin til nákvæmrar skoðunar (og allt tekið upp úr handtöskunni) af því að öryggishliðið pípir þegar hún gengur í gegn. „Eftirlit af þessu tagi þjónar afar takmörkuðum tilgangi,“ sagði Stigaard.