Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks, vinnur nú sem ráðgjafi slitastjórnar Glitnis og aðstoðar þrotabúið við að selja 95 prósent hlut í Íslandsbanka til erlendra fjárfesta. Þetta kemur fram í DV í dag.
Tryggvi Þór hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir íslenskrar ríkisstjórnir. Hann var efnahagsráðgjafi Geirs H. Haarde, þáverandi forstætisráðherra, í hruninu og verkefnastjóri „Leiðréttingarinnar“, sem snérist um að niðurgreiða húsnæðislán hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. "Leiðréttingin" verður greidd úr ríkissjóði en til að auka tekjur sínar til að standa undir þeim greiðslum hækkaði ríkið sérstakan bankaskatt og lagði hann meðal annars á skuldir þrotabú föllnu bankanna. Glitnir, sem hefur kært álagningu skattsins til Ríkisskattstjóra og sagt að til greina komi að fara með hann fyrir dómstóla, borgaði 8,3 milljarða króna í skattinn í fyrra.
Tryggvi vildi ekki staðfesta þetta í samtali við DV og svaraði spurningu þess efnis með: „No comment“. DV segist hins vegar hafa heimildir fyrir því að starf hans felist einkum í því að veita Glitni ráðgjöf við söluferli Íslandsbanka.
Kaupendur frá Mið-Austurlöndum
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að nokkrir hópar séu áhugasamir um að kaupa Íslandsbanka. Viðræður standa yfir við þá. Þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndunum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Einhver hópana ritaði undir viljayfirlýsingu í síðasta mánuði. DV sagði að það hefðu verið Mið-Austurlandahópurinn og að um sé að ræða ríkisfjárfestingasjóði. Ekkert skuldbindandi tilboð liggur hins vegar enn fyrir en innan slitabús Glitnis standa vonir til þess að það muni geta valið úr tilboðum þegar upp er staðið. Áhuginn á Íslandsbanka, sem gæti selst á um 150 milljarða króna, sé það mikill.
Ef allt gengur samkvæmt áætlun er búist við því að hægt verði að ganga frá sölu á 95 prósent hlut slitabús Glitnis til nýs erlends eiganda fyrir mitt þetta ár.
Gæti selst á um 150 milljarða króna
Ef af sölunni verður mun slitastjórn Glitnis fá erlendan gjaldeyri fyrir hlut sinn í bankanum og innlendar eignir þrotabús Glitnis lækka um það sem nemur kaupverðinu. Miðað við bókfært virði á hlut Glitnis í Íslandsbanka gæti það verið um 150 milljarðar króna. Gangi áformin eftir gæti sölunni á Íslandbanka lokið um mitt þetta ár. Áformin voru kynnt fyrir ráðgjöfum stjórnvalda á fundi með þeim í desember síðastliðnum.
Kaupin yrðu enda bundin því að íslensk stjórnvöld myndu blessa þau. Auk þess þyrfti að semja um hvers kyns hömlur yrðu settar á arðgreiðslur bankanna til erlendra eigenda á meðan að fjármagnshöft eru við lýði. Þá þarf að taka pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til erlendra fjárfesta.
Stærstu kröfuhafar Glitnis eru erlendir vogunar- og fjárfestingasjóðir.