Hinn rúmlega tvítugi Dzhokhar Tsarnaev, sem bar ábyrgð á sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu árið 2013 ásamt bróður sínum, hefur áfrýjað dauðadómi sem hann hlaut í júní síðastliðnum.
Lögmenn hans segja að vegna athyglinnar sem málið hlaut hafi kviðdómendur ekki verið hlutlausir og Tsarnaev hafi því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. Hann eigi skilið ný réttarhöld fjarri Boston. Lögmennirnir segja að umfjöllun á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hafi haft mikil áhrif um allt Massachusetts-ríki, og því hafi kviðdómendur ekki getað verið hlutlausir.
Tsarnaev var dæmdur fyrir þrjátíu brot í apríl síðastliðnum, og í sautján þessara brota getur legið dauðarefsing við. Sprengjuárásin varð þremur að bana og 264 til viðbótar særðust. Í júní var svo refsingin kveðin upp, dauðadómur. Kviðdómendur komust að þeirri niðurstöðu eftir löng réttarhöld, þar sem meðal annars var hlustað á vitnisburði yfir 150 manns, að Tsarnaev hefði ekki sýnt iðrun vegna gjörða sinna. Hann baðst afsökunar þegar dómurinn var kveðinn upp, en það var í fyrsta skipti sem hann tjáði sig um málið.