Atvinnulausir Bretar í Evrópu fá miklu hærri upphæðir í bætur og styrki í öðrum ríkum Evrópusambandsríkjum en íbúar þessara landa fá í bætur í Bretlandi. Þetta kemur í ljós í nýrri rannsókn breska blaðsins Guardian.
Að minnsta kosti 30 þúsund breskir ríkisborgarar eru á atvinnuleysisbótum í ýmsum ríkjum ESB. Þetta eru um 2,5 prósent Breta í öðrum ríkjum ESB. Fjöldi atvinnulausra Evrópubúa í Bretlandi er um 65 þúsund, sem er svipað hlutfall af fjölda. Svör bárust frá 23 af þeim 27 ríkjum sem um ræðir.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru þvert á yfirlýsingar breskra stjórnvalda um að fólk í öðrum ESB-ríkjum flykkist til Bretlands til þess að komast á hærri bætur, að mati Guardian.
Cameron vill semja um innflytjendur
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vill semja um það sem hann kallar umbætur á reglum Evrópusambandsins um frjálst flæði fólks innan sambandsins. Þetta er meðal þess sem hann vill breyta og semja um upp á nýtt við ESB, en hann segist svo ætla að bera aðild Bretlands að ESB undir þjóðina árið 2017 ef hann verður enn við völd.
Þessum tilraunum hefur víðast hvar verið illa tekið í Evrópu, enda fjórfrelsið meðal grundvallaratriða í Evrópusambandinu.
Það mun koma í hlut Donald Tusk að semja við Bretland fyrir hönd ESB, en hann er fyrrum forsætisráðherra Póllands. Pólverjar eru stærsti einstaki hópur útlendinga sem fær atvinnuleysisbætur í Bretlandi, eða 15 þúsund manns. Ólíklegt er talið að Tusk muni samþykkja nokkrar breytingar sem munu koma þessu fólki illa.
Allt önnur mynd innflytjenda
Skjáskot af síðu Guardian.
Gögnin sem Guardian hefur tekið saman sýna allt aðra mynd en hefur verið haldið á lofti í Bretlandi, þar sem hávær umræða hefur verið um að fólk frá öðrum ríkjum Evrópusambandsins komi þangað til að leggjast á breska bótakerfið og fá hærri bætur. Það er ekki síst sjálfstæðisflokkurinn UKIP sem hefur haldið þessu á lofti.
Fjórum sinnum fleiri Bretar þiggja bætur í Þýskalandi en öfugt, og fimm sinnum fleiri Bretar þiggja bætur á Írlandi en Írar í Bretlandi.
Bætur víða í Evrópu eru þar að auki mun hærri en í Bretlandi. Breti í Frakklandi fær um það bil þrisvar sinnum meira í atvinnuleysisbætur en Frakki fengi í Bretlandi.
Um þrisvar sinnum fleiri Bretar þiggja bætur í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Írlandi en ríkisborgarar sömu landa gera í Bretlandi.
„Yfirgnæfandi meirihluti Breta í útlöndum rétt eins og aðrir Evrópubúar í Bretlandi er ekki byrði á ríkjunum sem þeir búa í,“ segir Roxana Barbulescu sérfræðingur í innflytjendamálum hjá háskólanum í Sheffield við Guardian.
Mjög fáir Bretar eru aftur á móti á bótum í Austur-Evrópu. Hins vegar leiða tölur Guardian einnig í ljós að fjöldi bótaþega frá þessum ríkjum í Bretlandi er ekki mjög mikill. Um þúsund Rúmenar og 500 Búlgarar fá atvinnuleysisbætur í Bretlandi. Sem fyrr segir er lang stærsti hópurinn Pólverjar, en næst á eftir eru tæplega 6.700 Slóvakar og svo 6.210 Portúgalar.