HB Grandi hagnaðist um 13,8 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega tveimur milljörðum króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 53,3 milljónum evra, tæplega átta milljörðum króna, á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins en rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 21,4 milljónum evra, eða sem nemur 3,2 milljörðum króna.
Þetta er eitt besta uppgjör í sögu fyrirtækisins, enda EBITDA framlegð upp á 40,1 prósent, eins og uppgjörið sýnir, fáheyrð í rekstri skráðra fyrirtækja. Uppgjörið er í takt við rekstur fyrirtækisins á síðustu árum, sem hafa hverið bestu rekstrarár í sögu fyrirtækisins.
Heildareignir félagsins námu 393,2 milljónum evra í lok mars 2015, eða sem nemur um 60 milljörðum króna. Þar af voru fastafjármunir 300,1 milljónir evra, eða um 45 milljarðar króna. Veltufjármunir voru 93,1 milljónir evra, eða tæplega fjórtán milljarðar króna. Eigið fé nam 233,6 milljónum evra, eða um 35 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall í lok mars var 59,4%, en var 59,7% í lok árs 2014. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 159,6 milljónir evra, eða sem nemur 23,9 milljörðum króna.