Alls segjast 37 prósent aðspurðra sem tóku afstöðu í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins styðja ríkisstjórnina en 63 prósent gera það ekki. Stuðningurinn er meiri hjá körlum en konum. Rúmlega fjórir af hverjum tíu karlmönnum styðja ríkisstjórnina (43 prósent) eða einungs þrjár af hverjum tíu konum (29 prósent).
Í samtali við Fréttablaðið segir Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, að hún ímyndi sér að þegar "við förum að núna að sjá meiri árangur af He4she og jafnvel húsnæðismálum og meira af þessum mjúku málum, sem eru þó í senn hörð mál, þá fari konur að opna aðeins betur augun.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er einn tíu þjóðarleiðtoga sem leiða nýtt verkefni HeforShe, svokallað IMPACT 10x10x10's. Leiðtogarnir tíu munu takast á hendur mikilvægar skuldbindingar til að ná jafnrétti bæði innanlands, sem og á heimsvísu. Skuldbindingarnar eru unnar í samstarfi við UN Women, jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hleypti HeforShe verkefninu af stokkunum í september 2014, með ávarpi leikkonunnar Emmu Watson.
Lítið fylgi Framsóknar en Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Fréttablaðið birti fyrir helgi könnun sem sýndi fylgi stjórnmálaflokka. Þar kom fram að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing ef þingkosningar færu fram í dag, Framsóknarflokkurinn mældist með 8,5 prósent fylgi þrátt fyrir að áætlun um losun hafta og það fjárhagslega svigrúm sem hún á að skapa hafi verið kynnt og Píratar bættu enn við sig fylgi og mældust með 37, 5 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn bætti einnig töluvert við sig samkvæmt könnuninni og fengi 29,5 prósent atkvæða, sem er meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum (26,7 prósent).
Hvorki Samfylkingin né Vinstri grænir virðast höfða til kjósenda um þessar mundir. Fylgi Samfylkingarinnar mælist ellefu prósent, sem er undir kjörfylgi flokksins, en Samfylkingin beið einn stærsta kosningaósigur sögunnar í apríl 2013 þegar flokkurinn fékk 12,85 prósent atkvæða. Vinstri græn, sem eiga vinsælasta stjórnmálamann landsins í formanninum Katrínu Jakobsdóttur, myndu einungis fá 7,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Það myndi skila flokknum fimm þingmönnum. Vinstri grænir fengu 10,87 prósent atkvæða í kosningunum vorið 2013.
Um er að ræða fyrstu könnunina sem gerð er eftir að umfangsmikil áætlun stjórnvalda um losun hafta var kynnt og samkomulag við kröfuhafa var gert í byrjun þessa mánaðar.