Bandarísk fréttakona, Allison Parker, og tökumaðurinn Adam Ward voru í dag skotin til bana á meðan að þau voru í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni WDBJ7. Parker og Ward voru að taka upp viðtal í bænum Moneta í Bedford-sýslu, sem er í Virginiu-ríki í Bandaríkjunum. Samkvæmt frétt BBC um málið átti árásin átti sér stað klukkan 06:45 að staðartíma í stórri verslunarmiðstöð, Bridgewater Plaza. Vicki Gardner, formaður viðskiptaráðs svæðisins, sem var viðmælandi Parker lifði af árásina en slasaðist umtalsvert. Samkvæmt frétt Roanoke Times er hún í bráðaaðgerð.
Hér að neðan er hægt að sjá myndband af útsendingunni. Í því heyrast skothvellir og öskur fréttakonunnar og viðmælanda hennar áður en að klippt er aftur í myndver. Varað er við innihaldi þess.
https://www.youtube.com/watch?v=cl8okt4BuU4
Lögregluyfirvöld í Moneta segja að rannsókn standi yfir og að leitað sé að ódæðismanninum. Framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar, Jeffrey Marks, sagði í útsendingu fyrir skemmstu samkvæmt frásögn á vef BBC, að Parker og Ward hafi látist klukkan 06:45 að staðartíma, skömmu eftir að skothvellirnir heyrðust. "Við vitum ekki hver ástæða verknaðarins er né hver sá grunaði eða morðinginn er," sagði Marks. "Ég get ekki sagt ykkur hversu mikið þau voru elskuð af WDBJ7-teyminu...hjörtu okkar eru brostin."
Hægt er að horfa á beina útsendingu frá WDBJ7 hér.
WDBJ7 sjónvarpsstöðin setti stöðuuppfærslu á Twitter fyrr í dag vegna atburðanna.
We are trying to figure out what just happened -- thank you all for your concern and kind words.
— WDBJ7 (@WDBJ7) August 26, 2015