Árlegur sparnaður heimila á höfuðborgarsvæðinu, ef helmingur starfandi fólks gæti unnið að heiman tvo daga í viku, væri um 15 milljarðar króna. Með þessu fyrirkomulagi sparast 83 milljónir ekinna kílómetra og 3 milljónir klukkustunda.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svokölluðu samgöngumati, sem Bandalag háskólamanna (BHM) hefur unnið í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit.
Sagt er frá þessu í tilkynningu frá BHM í dag, en bandalagið hefur boðað til streymisfundar kl. 11:30 þar sem þessar niðurstöður verða kynntar í frekari smáatriðum, auk þess sem rætt er um kosti og galla við fjarvinnu og breytingar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu BHM er haft eftir Friðriki Jónssyni formanni BHM að fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu ættu að leitast við að starfsmönnum sínum heimild til að vinna fjarvinnu tvo daga í viku, þar sem því verði við komið, enda sé það allra hagur.
„Við höfum áður talað um aukna framleiðni, minni yfirbyggingu, aukinn sveigjanleika og bætt lífsgæði launafólks sem helstu sölupunktana en nú sjáum við líka svart á hvítu hvað fjarvinnan þýðir fyrir þjóðfélagið. Við hikum ekki við að fullyrða að fjarvinnan er verðmætasta samgöngubótin í sögu höfuðborgarsvæðisins,“ er haft eftir Friðrik í tilkynningu BHM.
Arðsamari aðgerð en Borgarlína og Sundabraut
Í tilkynningu BHM er settur fram samanburður við hagfræðilegar greiningar sem gerðar hafa verið á arðsemi Borgarlínu og Sundabrautar, tveimur stórverkefnum í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, á undanförnum árum.
Núvirtur þrjátíu ára ábati af þessu þrennu er borinn saman og þá fæst sú niðurstaða að tveggja daga fjarvinnuheimild muni skila 370 milljarða ábata á næstu 30 árum, en það er fimmfalt meiri ábati en áætlað er að Borgarlína muni skila og um 50 prósent meiri ábati en gert er ráð fyrir að bygging Sundabrautar hafi í för með sér fyrir samfélagið.