Efla þarf skilvirkni skattkerfisins og starfsemi hins opinbera. Skattbyrði hérlendis er í dag sambærileg við önnur Norðurlönd, en sjálfbærni í opinberum fjármálum er minni. Skattkerfi hins opinbera samanstendur af sköttum á vinnu (47% skatttekna), neyslu (30%), fjármagn (21%) og auðlindir (2%).
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs um hlutverk hins opinbera, en Viðskiptaþing ráðsins hefst í dag. Viðskiptaráð vill með skýrslunni stuðla að „málefnalegri umræðu um hlutverk hins opinbera“, að því er segir í tilkynningu frá ráðinu.
Í skýrslunni kemur fram að mestum fjármunum hins opinbera sé varið í grunnþjónustu, eða (48% útgjalda). Þar á eftir koma útgjöld vegna framfærslu (19% útgjalda) og samfélagsmótunar (15% útgjalda).
Eins og greint var frá í morgun, þá leggur Viðskiptaráð til að hið opinbera kúvendi eignaumsýslu með stórfelldri sölu á eignum til að grynnka á skuldum. Viðskiptaráð telur að ef ríki og sveitarfélög myndu selja hlut sinn í Landsbankanum (236 milljarðar króna), Arion banka (18 milljarðar króna), Íslandsbanka (átta milljarðar króna), sparisjóðum (einn milljarður króna), Landsvirkjun (176 milljarðar króna), Orkuveitu Reykjavíkur (101 milljarðar króna), Orkusölunni (28 milljarðar króna), Orkubúi Vestfjarða (þrír milljarðar króna), Landsneti (67 milljarðar króna), HS Veitum (þrettán milljarðar króna), RARIK (þrettán milljarðar króna), Farice (59 milljarðar króna), Isavia (31 milljarður króna), ÁTVR (19 milljarðar króna), Íslandspósti (fimm milljarðar króna) og Sorpu (fjórir milljarðar króna) væri hægt að ná í samtals nálægt 800 milljörðum króna.
Er í þessum tillögum miðað við innra virði þeirra fyrirtækja sem nefnd eru (1*eigið fé).