Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, verður áfram formaður flokksins þrátt fyrir að hafa lýst því yfir síðastliðinn föstudag að hann ætlaði að segja af sér embættinu. Framkvæmdanefnd UKIP hefur hafnað afsögn hans og lýst því yfir að kosningabarátta flokksins, sem lauk með því að hann fékk 3,8 milljón atkvæði og þrettán prósent atkvæða, en einungis eitt þingsæti, hefði leitt til mikil sigurs. Farage dró í kjölfarið afsögn sína til baka og mun því, líkt og áður sagði, halda áfram sem formaður UKIP. Frá þessu er greint á vef The Telegraph.
Langar tíu mínútur
Farage náði ekki þingsæti í Suður-Thanet kjördæmi í kosningunum síðastliðinn fimmtudag. Í kjölfarið tilkynnti hann að hann hygðist segja af sem formaður flokksins.Það var Craig Mackinlay, frambjóðandi Íhaldsflokksins, sem hlaut flest atkvæði og þar með þingsætið í kjördæminu. Hann hlaut tæplega 19 þúsund atkvæði og 38 prósent, en Farage hlaut rúmlega 16 þúsund atkvæði, eða 32 prósent.
Fyrir kosningarnar sagði Farage að ef hann næði ekki þingsætinu myndi hann segja af sér „innan tíu mínútna“. Það gerði hann hins vegar ekki í ræðu sinni um leið og úrslitin voru kynnt, heldur hélt stuttan blaðamannafund um klukkustund seinna þar sem hann tilkynnti þetta.
Hann sagðist vera maður orða sinna og því ætlaði hann að segja af sér embætti. Hins vegar sagðist hann ætla að íhuga stöðu sína í sumar og mögulega myndi hann bjóða sig aftur fram til embættisins í haust. Hann ætlaði að taka sér frí í allt sumar, í fyrsta skipti frá árinu 1993 að eigin sögn.
Nú er hins vegar ljóst að Farage fer ekki neitt.