Úkraínski stjórnarherinn er nú á leið frá Debaltseve í austurhluta Úkraínu, þar sem harðir bardagar hafa geisað undanfarið. Þetta er mikilvægur sigur fyrir uppreisnarherinn, sem hefur þá náð völdum á svæðinu.
Sex þúsund hermenn stjórnarhersins voru í Debaltseve en skipun kom klukkan sex í morgun að staðartíma um að hörfa skyldi af staðnum. Petro Poroshenko Úkraínuforseti segir að 80 prósent hermanna hans hafi farið í morgun. Uppreisnarmenn hafa undanfarna viku eða svo nánast umkringt Debaltseve og fregnir herma að þeir hafi skotið á öll farartæki sem reyndu að komast burt. Stjórnvöld í Kíev viðurkenna að einhverjir hermenn hafi verið teknir til fanga en hefur ekki gefið upp fjölda þeirra. Uppreisnarmenn segja að hundruðir hermanna hafi gefið sig fram við þá.
Guardian greinir frá því að að minnsta kosti 90 særðir hermenn hefðu verið fluttir á spítala og einn læknir á svæðinu sagðist hafa farið með 20 lík í líkhús. Flestir hinna látnu hefðu verið drepnir á leið burt frá Debaltseve.
Um 25 þúsund manns bjuggu í Debaltseve áður en bardagar hófust þar, en staðurinn er hernaðarlega mikilvægur vegna þess að hann tengir Donetsk og Luhansk.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti óskaði eftir því á fundum í síðustu viku að vopnahléinu í Úkraínu yrði seinkað um 10 daga til þess að uppreisnarmennirnir gætu náð bænum á sitt vald.