„Þegar við fórum inn í grunninn í morgun voru 4.533 búnir að skrá sig,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu, aðspurð um hversu margir hafi skráð sig sem líffæragjafar í miðlægan gagnagrunn um slíka sem opnaður var formlega síðastliðinn föstudag. Sá fjöldi sem Jórlaug nefnir hefur því skráð sig sem líffæragjafar á þremur dögum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var fyrstur til að skrá sig í grunninn þegar hann var opnaður formlega síðastliðinn föstudag.
Hún segir áhugan vera framar væntingum og greinilegt að hið einfalda aðgengi sem rafræn skráning með íslykli opnar fyrir geri það að verkum að mun fleiri skrá sig en ella.
Vissu ekki hvað líffæragjafar voru margir
Jórlaug segir að áður en gagnrgrunnurinn var opnaður hafi embætti Landlæknis ekki haft hugmynd um hversu margir Íslendingar væru líffæragjafar. „eru því ákveðin tímamót að við séum komin með þennan rafræna grunn. Áður vorum við bara með þessa bæklinga sem við dreifðum í apótek og heilbrigðisstofnanir. Fólk skráði síðan vilja sinn á þessi líffæragjafakort sem það geymdi með persónuskilríkjum í veskinu sínu. Við höfðum hins vegar enga hugmynd um hversu margir voru skráðir líffæragjafar.“
Í niðurstöðum könnunar, þar sem kannað var viðhorf til ætlaðs samþykkis líffæragjafar og birtist nýverið í Læknablaðinu, kom í ljós að einungis örfáir þeirra sem svöruðu, og voru hlynntir líffæragjöf, voru búnir að skrá afstöðu sína. „Þetta skiptir því miklu máli. Og það sem skiptir ekki síður máli er að upplýsingarnar úr þessum grunni eru nú aðgengilegar starfsfólki gjörgæslu- og slysadeilda allan sólarhringinn í gegnum ákveðið rafrænt kerfi. Það er þangað sem þessar upplýsingar eiga erindi.“
Engin aldursmörk og samkynhneigðir mega gefa líffæri
Að sögn Jórlaugar er áhuginn ekkert að dvína og fyrirspurnum um lífæragjöf rignir inn til hennar. „Margar eru um praktískt atriði eins og hvort það séu aldursmörk, sem er ekki. Ég hef líka fengið fyrirspurnir frá samkynhneigðum hvort þeir megi gerast líffæragjafar, vegna þess að það eru ákveðnar tamkarkanir á að þeir megi gefa blóð. Þeir mega það sannarlega því það er þannig að það geta allir skráð sig sem líffæragjafar. Það eru allir mögulegir líffæragjafar.“