Tæplega 123 milljónir manna innan Evrópusambandsins voru í hættu á því að lenda í fátækt eða í félagslegri útskúfun á á árinu 2013. Til að falla í þann hóp þarf að uppfylla að minnsta kosti eitt af þremur skilyrðum: að vera í hættu á að lenda undir fátækrarmörkum í kjölfar versnandi samfélagsstöðu, að búa við mjög bágborin fjárhagsleg skilyrði eða að búa á heimili þar sem atvinnuþátttaka er lítil.
Hlutfall þeirra sem eru í áhættuhópnum dróst smávægilega saman á milli ára, úr 24,8 prósent í 24,5 prósent. Hlutfall Evrópusambandsbúa sem eru í áhættuhópnum er hins vegar enn hærra en það var árið 2008, þegar það var 23,8 prósent. Fækkun fólks í þessum áhættuhópi er ein af helstu markmiðum Europe 2020 áætlunar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti í dag.
Ástandið skást á Íslandi en hefur versnað
Eurostat tekur líka saman tölur yfir þau ríki sem eiga aðild að Evrópska Efnahagssvæðinu, og þar með Ísland. Hlutfall þeirra Íslendinga sem eru í hættu á að lenda í fátækt eða félagslegri útskúfun er lægra en allra hinna landanna sem Eurostat skoðar. Einungis 13 prósent landsmanna er í áhættuhópnum. Það gera samt sem áður um 40 þúsund manns í samfélagi sem telur um 328 þúsund manns.
Það er líka áhyggjuefni fyrir Ísland að hlutfall þeirra sem tilheyra þessum áhættuhópi hefur hækkað töluert frá árinu 2008, þegar það var 11,8 prósent. Fjöldi þeirra Íslendinga sem eru í hættu á að verða fátækur eða félagslega útskúfaður hefur því aukist um fjögur þúsund, eða um níu prósent. Aukning er langmest í þeim hópi sem býr á heimili þar sem atvinnuþátttaka er lítil.
Staðan verst í Búlgaríu og Rúmeníu
Innan Evrópusambandsins er fjöldi þeirra sem eru í hættu á að lenda í fátækt eða félagslegri útskúfun hlutfallslega mestur í Bulgaríu (48 prósent), Rúmeníu (40,4 prósent), Grikklandi (35,7 prósent), Lettlandi (35,1 prósent) og Ungverjalandi (33,5 prósent). Hlutfallið er lægst í Tékklandi (14,6 prósent), Hollandi (15,9 prósent), Finnlandi (16 prósent) og Svíþjóð (16,4 prósent).