Á því ári sem liðið er frá því að byrjað var að veita hlutdeildarlán, vaxtalaus viðbótarlán úr ríkissjóði sem ætluð eru tekju- og eignalitlum fyrstu kaupendum, hafa 43 prósent lánanna verið veitt á höfuðborgarsvæðinu en 57 prósent utan þess. Þetta kemur fram í svari frá Húsnæðis- og mannsvirkjastofnun við fyrirspurn Kjarnans.
Þegar hlutdeildarlánin voru samþykkt á þingi haustið 2020 var búist við því að lánin yrðu umtalsvert fleiri á höfuðborgarsvæðinu en reyndin hefur verið til þessa, en inn í reglugerð um hlutdeildarlánin voru skrifaðar sérstakar tryggingar fyrir því að minnsta kosti 20 prósent af þessari nýju tegund lána yrðu veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Það má þó ef til vill teljast eðlilegt að lánað hafi verið fyrir fleiri íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins til þessa, enda eru þau skilyrði skrifuð inn í reglugerð um lánin að á höfuðborgarsvæðinu þurfi íbúðirnar að vera nýbyggðar, á meðan að utan höfuðborgarsvæðisins er hægt að fá undanþágu og fá lánað fyrir eldri íbúð sem hlotið hefur gagngerar endurbætur.
Á höfuðborgarsvæðinu er fasteignaverð þó einnig það hæsta á landinu og flestir einstaklingar sem eru að reyna að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Á það hefur verið bent á undanförnu að í dag séu afar fáar íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem falli innan þess verðbils sem gerir íbúðir „hagkvæmar“ í skilningi reglugerðar um hludeildarlán.
Alls hafa 126 hlutdeildarlán verið veitt til íbúðakaupa á höfuðborgarsvæðinu, þar af 80 í Reykjavík, 18 í Mosfellsbæ, 11 í Hafnarfirði, 9 í Garðabæ og 8 í Kópavogi. Afgangurinn af lánunum hefur dreifst um allt land, en lánin eru 292 í heildina samkvæmt tölunum sem Kjarninn fékk frá HMS.
Fyrir utan höfuðborgarsvæðið hafa flest lán verið veitt í Reykjanesbæ, eða alls 63 talsins. Á Akureyri hefur verið lánað fyrir kaupum á 45 íbúðum og í Árborg eru lánin 16 talsins til þessa. Lánað hefur verið til kaupa á 10 íbúðum í Hveragerði, 9 lán hafa verið veitt í Suðurnesjabæ og 8 á Akranesi.
Í öðrum sveitarfélögum hringinn í kringum landið eru lánin 1-2 talsins. Reyndar væri réttara að tala um hálfhring um landi í þessu samhengi, því ekkert hlutdeildarlán hefur enn verið veitt til kaupa á íbúðum í sveitarfélögum á Austur- eða Suðausturlandi.
Flest þau lán sem hafa verið veitt utan höfuðborgarsvæðisins til þessa, í fyrstu fimm úthlutunum ársins 2021 af þeim sex sem áætlað er að klárist á árinu, hafa verið til kaupa á íbúðum á skilgreindum vaxtarsvæðum utan borgarsvæðisins. Þar, n.t.t. á Akranesi, Akureyri, Grindavík, Hveragerði, Reykjanesbæ, Árborg og Vogum er lánað fyrir ögn dýrari íbúðum en í öðrum sveitarfélögum utan Stór-Reykjavíkur, þar sem svo aftur er lánað fyrir enn dýrari íbúðum.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir í svari til Kjarnans að um þessar mundir sé verið að ljúka sjöttu og síðustu úthlutun ársins og að frekari tölfræði um stöðu úthlutana muni verða aðgengileg hjá stofnuninni eftir þá úthlutun.
Eins og Kjarninn sagði frá á dögunum var áður en að þeirri úthlutun kom búið að úthluta innan við 2,5 milljörðum króna frá því að þetta nýja úrræði fór af stað, en þegar lánin voru kynnt til sögunnar var gert ráð fyrir því að um fjórum milljörðum yrði úthlutað árlega, alls 40 milljörðum á tíu ára tímabili. Í fjárlagafrumvarpinu var enn gert ráð fyrir því í áætlunum stjórnvalda að lánin upp í 3,6 milljarða króna á þessu ári, að lokinni síðustu úthlutuninni.