Um tuttugu viðskiptavinir Virgin Galactic, sem áttu pantaða geimferð með félagi auðkýfingsins Richard Branson, hafa ákveðið að hætta við ferðina sökum slyss sem varð hjá geimflugfélaginu á dögunum. Fréttamiðillinn The Verge segir frá málinu. Þá fórst SpaceShipTwo geimflugvél félagsins í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu, með þeim afleiðingum að annar flugmaður vélarinnar lést og hinn slasaðist alvarlega.
Um 700 viðskiptavinir hafa pantað sér geimflugferð með Virgin Galactic, en þeirra á meðal er heimsfrægt fólk á borð við Lady Gaga, Justin Bieber, Ashton Kutcher, Leonardo DiCaprio og þá hefur eðlisfræðingurinn Stephen Hawking sömuleiðis pantað sér far. Geimflauginn tekur sex farþega í hverja ferð, en geimflugfélagið hyggst fara eina ferð á dag út í geim þegar reglulegt áætlunarflug hefst.
Talsmaður Virgin Galactic segir geimflugfélagið enn stefna á að hefja áætlunarflug út fyrir gufuhvolfið á þessu ári, en þó muni félagið fara sér hægt og gæta þess að fyrirbyggja fleiri slys.
Enn á huldu hvað olli slysinu
Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar, en sérfræðingar leita einna helst skýringa á því af hverju geimflugvél Virgin tvístraðist í tilraunaflugi yfir Mojave-eyðimörkinni. Rannsakendur á vegum samgöngumálayfirvalda vestan hafs hafa fundið eldsneytistank og vél geimflugvélarinnar nánast í heilu lagi, sem afsannar kenningu sem fór á flug skömmu eftir slysið að ný gerð af eldsneyti hefði orsakað sprengingu og þar með grandað vélinni.
Geimflugmiði með Virgin Galactic kostar 250.000 Bandaríkjadali, eða rúma 31 milljón króna. Ekki liggur fyrir hverjir viðskiptavina geimflugfélagsins hafa krafist endurgreiðslu. Eins og kunnugt er hefur Íslendingurinn Gísli Gíslason, innflytjandi Tesla-rafbílanna á Íslandi, keypt sér geimferð með Virgin Galactic. Í samtali við Kjarnann á dögunum, skömmu eftir slysið hjá Virgin, sagði Gísli slysið engu breyta um áform hans að fara í geimferð. "Þetta er auðvitað hræðilegur atburður, en kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Þetta er nú einu sinni geimferð, ekki sunnudagsbíltúr," sagði Gísli í samtali við Kjarnann.