Umboðsmaður Alþingis segir að yfirlýsingar og bréf Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra til starfsmanna Fiskistofu, þar sem fram komu áform um flutning stofnunarinnar til Akureyrar, hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns í tilefni af kvörtun starfsmanna Fiskistofu til embættisins vegna ákvörðunar ráðherra um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu. Álitið er dagsett í dag og var tilkynnt málsaðilum síðdegis.
Umboðsmaður tekur ekki afstöðu til lögmætis ákvörðunar ráðherra, og hvaða réttaráhrif yfirlýsingar og bréf hans um flutning Fiskistofu kann að hafa á hagsmuni starfsmanna stofnunarinnar. Það sé dómstóla að meta.
Gagnrýnir ráðherra
Hins vegar segir í áliti umboðsmanns: „Með tilliti til þess eftirlits sem umboðsmanni Alþingis er samkvæmt lögum ætlað að hafa með stjórnsýslunni tel ég hins vegar tilefni til að lýsa þeirri afstöðu minni að yfirlýsingar og bréf ráðherra sem beint var til starfsmanna Fiskistofu og þar með hvernig staðið var að upplýsingagjöf um þetta mál gagnvart þeim af hálfu ráðherra, þ.á.m. um hvaða ákvörðun hafi verið tekin í raun um flutninginn, hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.“
Þá gagnrýnir umboðsmaður sjávarútvegsráðherra fyrir vinnubrögð hans í málinu. „Þá er það það álit mitt að það hafi ekki samrýmst þeim skyldum ráðherra sem leiða af (lögum um Stjórnarráð Íslands, að láta hjá líða að fá um það ráðgjöf innan ráðuneytisins eða með öðrum hætti hvort gildandi lagaheimildir stæðu til þess að ráðherra gæti tekið ákvörðun um flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar áður en hann kynnti starfsmönnum Fiskistofu málið.“
Talar beint til forsætisráðherra
Þá beinir umboðsmaður tilmælum beint til Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar forsætisráðherra. „Ég tel jafnframt tilefni til þess að vekja athygli forsætisráðherra almennt á því að miðað við þau mál sem ég hef tekið til athugunar að undanförnu virðist vera þörf á að huga betur að framkvæmd þessarar lagareglu innan Stjórnarráðs Íslands.“
Að lokum mælist umboðsmaður Alþingis til þess, á meðan beðið er afstöðu Alþingis til málsins, „að ráðherra geri starfsmönnum Fiskistofu formlega grein fyrir stöðu þess nú og hvers þeir megi vænta um framhaldið. Jafnframt mælist ég til þess að framvegis verði betur hugað að þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu um undirbúning mála og skyldu ráðherra til að leita ráðgjafar.“