Embætti umboðsmanns Alþingis barst 492 nýjar kvartanir á árinu 2014, sem er nánast sami fjöldi kvartana og árið á undan. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu embættisins.
Í árslok 2014 hafði embættið lokið afgreiðslu í 87,5 prósentum mála eða 430 þeirra kvartana sem bárust á árinu, að því er fram kemur í fréttinni. Nær 60 prósentum þeirra var lokið innan eins mánaðar, en það er hlutfallslega tvöföldun frá árunum 2012 og 2013, en þá var í kringum 30 prósent afgreiddra mála sem bárust á þeim árum lokið innan mánaðar. Þá voru um 90 prósent málanna lokið innan fjögurra mánaða og nær 96 prósent málanna innan sex mánaða frá því að kvörtun barst.
Til marks um árangurinn af auknum hraða við afgreiðslu kvartana hjá umboðsmanni Alþingis voru 78 mál til athugunar hjá embættinu um áramótin, samanborið við 142 áramótin á unda.Þá hafa mál til athugunar hjá umboðsmanni um áramót ekki verið færri síðan á árunum 2005 og 2006, en þá var árlegur fjöldi nýrra kvartana um 300.
Styttri afgreiðslutíma mála hjá umboðsmanni má fyrst og fremst rekja til breytinga sem gerðar voru á verklagi við móttöku og afgreiðslu á nýjum kvörtunum í lok árs 2013. Þá er vonast til þess að breytt verkefnastaða hjá embætti umboðsmanns Alþingis geri kleift að auka og bæta upplýsingagjöf á heimasíðu embættisins um afgreidd mál.