Umboðsmaður Alþingis hefur veitt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, frest til að koma á framfæri frekari sjónarmiðum sínum vegna frumkvæðisathugunar sem umboðsmaður hefur unnið á samskiptum hennar og Stefáns Eiríkssonar, fyrrum lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef umboðsmanns sem birt var í morgun.
Ný ábending barst
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að umboðsmaður Alþingis sé búinn að ljúka athugun sinni á ábendingu sem barst í nóvember í tengslum við frumkvæðisathugun embættisins á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir að athugun umboðsmanns hafi falist í því að afla upplýsinga vegna ábendingarinnar og fá afstöðu Hönnu Birnu til þeirra. Síðustu daga hefur verið unnið úr þeim og að frágangi á niðurstöðu frumkvæðisathugunarinnar.Nú er hins vegar ljóst að birting hennar frestast þar til að Hanna Birna hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Það þarf hún að gera fyrir 8. janúar næstkomandi.
Niðurstaðan átti að koma í nóvember
Ekki hefur komið fram hvað felst í ábendingunni sem umboðsmanni Alþingis barst í nóvember. Í tilkynningu frá honum í lok nóvember kom hins vegar fram að hún tengist ekki samskiptum Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, varðandi perónulegar upplýsingar um hælisleitandann Tony Omos sem Sigríður Björk sendi Gísla Frey í tölvupósti við upphaf lekamálsins. Því er ljóst að um nýjar upplýsingar var að ræða er varða aðkomu Hönnu Birnu að málinu.
Upphaflega hugðist umboðsmaður Alþingis birta niðurstöður sínar í lok nóvember, en dráttur varð á birtingu niðurstöðunnar eftir að umrædd ábending barst embættinu. Nú hefur sú birting frestast enn lengur.