Umboðsmaður Alþingis hefur birt niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar segir hann að ráðherra hafi gengið langt út fyrir valdsvið sitt.
Í niðurstöðukafla álitsins segir: „Að framan hef ég lýst því áliti mínu að fyrrverandi innanríkisráðherra hafi sett fram við lögreglustjórann athugasemdir og gagnrýni á rannsókn sakamáls sem voru verulega umfram það sem gat samrýmst því að um væri að ræða efnislegar fyrirspurnir til að greiða fyrir rannsókn málsins eða meðferð gagna frá ráðuneytinu. Af efni samskiptanna, samkvæmt lýsingu lögreglustjóra, tel ég ljóst að þau hafi falið í sér ítrekaða gagnrýni og beinar athugasemdir ráðherra við það hvernig embætti lögreglustjórans stóð að rannsókninni, vinnubrögð lögreglunnar og einstakar rannsóknarathafnir. Ég lít svo á að þarna hafi verið um að ræða harða gagnrýni ráðherra á ákvarðanir og störf lögreglunnar í þessu máli. Í samræmi við framangreint er það niðurstaða mín að efni samskipta innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki samrýmst þeim reglum sem ráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar. Samskiptin voru því ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar. Þá tel ég að tengsl ráðherra og hagsmunir af framvindu rannsóknar sakamálsins hafi verið slíkir að samskiptin, miðað við efni þeirra, hafi farið í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni. Í samræmi við framangreindar niðurstöður get ég ekki fallist á að það sem kemur fram í bréfi fyrrverandi innanríkisráðherra til mín, dags. 8. janúar 2015, um að orðin „fyllilega“ og „nægilega“ eigi hér við. Þeim reglum sem um ræðir var einfaldlega ekki fylgt.“
Hanna Birna hefur beðist afsökunar á framgöngu sinni
Þá segir umboðsmaður að ráðherra hafi ekki gætt nægilega að því að virða þá stöðu sem lögreglustjórinn var í og þau viðmið um háttsemi sem ráðherra beri að fylgja í samskiptum við forstöðumann undirstofnunar. Þá kemur fram í niðurstöðu umboðsmanns að Hanna Birna hafi beðist afsökunar á samskiptum sínum við Stefán og framgöngu sinni í þeim.
Svo segir umboðsmaður: „Þá er það niðurstaða mín að samskipti aðstoðarmanna ráðherra, sem höfðu á þeim tíma réttarstöðu sakbornings, við lögreglustjórann þar sem þeir óskuðu eftir að hann brygðist við tiltekinni frétt hafi ekki verið í samræmi við hina óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttarins.“ Er þarna átt við Gísla Frey Valdórsson, sem hlaut nýverið skilorðsbundinn dóm fyrir aðild sína að lekamálinu, og Þóreyju Vilhjálmsdóttur sem stefndi tveimur blaðamönnum DV vegna umfjöllunar þeirra um lekamálið.
Fór á svig við lög um Stjórnarráð Íslands
Umboðsmaður segir að innanríkisráðherra hafi gerst brotlegur við lög með framferði sínu. „Á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hef aflað hefur innanríkisráðherra ekki sýnt fram á að hann hafi fylgt 20. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að leita sér ráðgjafar. Ég beini þeim tilmælum til þess ráðherra sem nú fer með innanríkisráðuneytið að gætt verði að þessu atriði í starfi ráðuneytisins framvegis.“
„Með vísan til þess eftirlitshlutverks sem umboðsmanni Alþingis er falið með stjórnsýslunni legg ég ríka áherslu á að afskipti ráðherra sem fór með yfirstjórn lögreglunnar af lögreglurannsókn sakamáls, sem tengdist honum sjálfum á tiltekinn hátt og sú framganga sem lögreglustjórinn lýsir, eru ekki aðeins andstæð þeim reglum sem fjallað er um í álitinu heldur eru þau einnig til þess fallin að gera þeim sem rannsaka sakamál óhægt um vik að rækja það starf sitt í samræmi við gildandi reglur.“