Umhverfisáhrif framkvæmda við áformaða uppbyggingu fiskeldis á svonefndri Rönd á Kópaskeri gætu orðið talsvert neikvæð. Ljóst er að umfangsmikið rask yrði á talsvert stórum varpsvæðum kríu og hettumáfs og líkur á að hettumáfsvarpið leggist af. Mögulegt er hins vegar að krían færi sig til.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu Rifóss hf. um framkvæmdina. Rifós áformar landeldi á laxaseiðum, eldisstöð sem gerir ráð fyrir 8.800 tonna framleiðslugetu á laxfiskum á ári. Gert er ráð fyrir allt að fjórum kerapöllum sem hver er með allt að átta útikerum, alls 32 ker. Seiðin yrðu alin í volgum jarðsjó þar til þau verða 300-1.000 grömm að þyngd en þá yrðu þau flutt með tankskipi í sjókvíar Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði.
Eldinu myndi fylgja mikil vatnsnotkun, um 980 l/s á ári, en vatnstaka úr borholum yrði mest 2.160 l/sek. Borholur á svæðinu þyrftu að vera 24 talsins. Rifós er nú þegar með fiskeldisstöð í rekstri á svæðinu sem er með starfsleyfi fyrir 400 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma.
Fiskeldi Austfjarða, sem á Rifós hf., lagði inn fyrirspurn um matsskyldu fyrir einum kerjapalli með 2.000 tonna framleiðslugetu laxfiska í júní árið 2020. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að uppbygging á einum palli væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og hófst laxeldi á honum í apríl 2021. Hin nýju áform felast í frekari uppbyggingu syðst á Röndinni, við Ósa Snartarstaðalækjar.
Framkvæmdasvæðið fyrirhugaða er á náttúruminjaskrá; Röndin: Sjávarbakkar frá Kópaskeri suður að Snartarstaðalæk. Jarðmyndun er frá lokum ísaldar (Kópaskersskeið) og þar er að finna sjávarset með skeljum og jökulruðningi, minjar um hopunarsögu ísaldarjökuls.
Í umhverfisskýrslu Rifóss sagði að suðurhluti jarðmyndunarinnar yrði innan framkvæmdasvæðisins en byggingarreitir kerjapalla austan við hana. Fyrirhugaður aðkomuvegur liggi að hluta til ofan á jarðmynduninni og raski yfirborði hennar. Afmörkun svæðisins á náttúruminjaskrá, samkvæmt aðalskipulagi Norðurþings, nær lengra til austurs en jarðmyndunin sjálf.
Svæðið austan við Röndina er flatur og uppgróinn sandur, segir í skýrslu Rifóss, en líklegt sé að það sé innan afmörkunar sem svæði á náttúruminjaskrá vegna ríks fuglalífs. Framkvæmdaaðili mat það svo að áhrif framkvæmdanna á náttúruverndarsvæði yrðu óveruleg en varanleg.
Skipulagsstofnun tekur undir með Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands að mikilvægt sé að raski á jarðmynduninni verði haldið í lágmarki. Þar sem nú þegar hafi orðið töluvert rask á svæðinu auki það mikilvægi þess að að vernda þann hluta myndunarinnar sem minnst er raskaður.
Helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og fyrirhugaðrar starfsemi kunna að mati Skipulagsstofnunar að verða vegna vatnsvinnslu auk áhrifa á fugla. Óvissa ríki um áhrif dælingar og vatnstöku á grunnvatnsstöðu sem og á stöðu yfirborðsvatns í nálægu votlendi, m.a. í ljósi þessa stutta tíma sem dælingarprófanir framkvæmdaaðila fóru fram og þess takmarkaða vatnsmagns sem dælt var upp í prófununum. Áhrif framkvæmdanna í heild gætu orðið talsvert neikvæð og leggur Skipulagsstofnun því áherslu á mikilvægi vöktunar og að áfangaskipta þurfi fyrirhugaðri uppbyggingu eldisins til þess að unnt sé að fylgjast með og meta betur áhrif á seltu, niðurdrátt og grunnvatns- og yfirborðsvatnsstöðu með hliðsjón af vöktun.
Varðandi áhrif á aðra umhverfisþætti þá er „ljóst að umfangsmikið rask verður á talsvert stórum varpsvæðum kríu og hettumáfs við fyrirhugaðar framkvæmdir og líkur á að hettumáfsvarp leggist af en möguleiki er á að krían færi sig til,“ segir í áliti stofnunarinnar. Mikilvægt sé því að útbúa ný varpsvæði fyrir kríur norðan og norðvestan við núverandi varpsvæði þeirra og að ekki verði um framkvæmdir að ræða á varptíma.
Skipulagsstofnun telur í ljósi aðstæðna að áhrif á fuglalíf muni verða talsvert neikvæð en með fyrrnefndum mótvægisaðgerðum megi draga úr áhrifunum að einhverju marki.
Skipulagsstofnun leggur í áliti sínu áherslu á vandaða hönnun mannvirkja, umhverfismótun og góðan frágang lóðar til að draga úr ásýndaráhrifum og að öllu raski verði haldið í lágmarki innan sem utan lóðarmarka þar sem framkvæmdasvæðið er á náttúruverndarsvæði.
Stofnunin telur að nauðsynlegt sé að staðsetning borhola liggi skýrt fyrir í umsókn um nýtingarleyfi Orkustofnunar og að í nýtingarleyfi þurfi að setja skilyrði um áfangaskipta uppbyggingu eldisins sem og vöktun og viðbrögð ef vöktun leiðir í ljós að vafi leiki á hvort svæðið þoli þá vatnsvinnslu sem fyrirhuguð er. Þá þarf að setja skilyrði í starfsleyfi um reglubundið eftirlit með virkni hreinsibúnaðar, losun mengunarefna og með ástandi viðtaka til þess að ganga úr skugga um að viðtaki, lífríki fjöru og grunnsævis verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum af völdum frárennslis frá eldisstöðinni.