Notendum Kjarnans fjölgaði um 87,5 prósent á milli vikna. Þeir voru 38.611 vikuna 20-26 október en 72.411 í vikunni 27. október til 2. nóvember. Á þeim rúmu fjórum vikum sem ný vefsíða Kjarnans hefur verið í loftinu hefur hún náð upp í tólfta sæti á listanum yfir mest sóttu vefsíður landsins. Vefur Kjarnans var í 18. sæti vikuna á undan. Þetta kemur fram í nýrri samræmdri vefmælingu Modernus sem var birt í morgun.
Mbl.is og Vísir.is hafa sætaskipti á ný
Þau miklu tíðindi áttu sér stað í síðustu viku að Vísir.is, frétta- og afþreyingarvefur 365 miðla, náði í fyrsta sinn að verða stærsti vefur landsins. Hann velti þar með mbl.is, frétta- og afþreyingarvef Árvakurs/Morgunblaðsins, úr sessi þegar horft er á einstaka notendur. Það var í fyrsta sinn sem Vísir náði að vera með fleiri einstaka notendur á einni viku en mbl.is.
Vefirnir hafa aftur sætaskipti þessa vikuna og mbl.is hefur tyllt sér á ný í toppsætið þar sem vefurinn hefur verið nær óslitið undanfarin ár. Notendafjöldi mbl.is er nánast sá sami og vikuna áður, tæplega 549 þúsund notendur, á meðan að notendum Vísis fækkar um 17,6 prósent á milli vikna og eru nú rúmlega 496 þúsund.
Mbl.is er aftur orðinn mest sótti vefur landsins. Vísir.is, sem velti honum úr sessi í síðustu viku, færist aftur niður í annað sætið.
Ástæðan fyrir hinu stóra stökki Vísis í síðustu viku má að miklu leyti rekja til áhuga erlendis frá á vefnum. Samkvæmt mælingum síðustu viku var 71 prósent umferðarinnar um Vísi innlend umferð. Það þýðir að 29 prósent hennar kom erlendis frá. Myndband af ungu fólki að velta bíl í bílakjallara Höfðatorgs er líkast til helsta ástæðan fyrir aukinni aðsókn erlendra aðila inn á síðuna í síðustu viku, enda var ensk útgáfa af frétt Vísis af atvikinu tekin upp á risastórum alþjóðlegum vefsíðum á borð við Livelink og Reddit.
Samkvæmt nýju mælingunni náði innlend umferð Visis jafnvægi á ný í síðustu viku. Þá komu um 83,2 prósent notenda síðunnar frá Íslandi en 16,8 prósent erlendis frá.