Umferð eykst mest á Þjóðvegi 1 um Austurland séu júnímánuðir síðustu fjögurra ára bornir saman. Alls staðar hefur umferðin aukist en minnst aukning er á Þjóðvegi 1 um Suðurland.
Ef rýnt er í umferðartölur Vegagerðarinnar fyrir síðasta mánuð og þær bornar saman við sama tímabil i fyrra sést að umferðarþungi heldur áfram að aukast á landinu öllu eða um 4,6 prósent. Það er þróun sem hófst eftir að umferð náði lágmarki árið 2012, en frá 2009 til 2012 minnkaði umferðarþungi um þjóðvegi Íslands hratt.
Nú er svo komið að umferð um Þjóðveg 1 er orðin jafn mikil og árið 2007 þegar umferðarmet var sett, segir á vef Vegagerðarinnar sem miðar umferðarvísitölu sína við árið 2005. Árið 2015 stefnir nú í að verða mesta umferðarárið um Þjóðveg 1. Áhugavert er að bera umferðarþunga um Hringveginn saman við þróun vergrar landsframleiðslu.
Fólk fylgir veðrinu
Inntur eftir skýringum á því hvers vegna aukningin var svo mikil milli ára á Austurlandi segist Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi í Fljótsdalshéraði, telja veðrið spila stóran þátt. Ferðamenn fylgi veðrinu eins og Íslendingum hefur alltaf verið tamt í sumarfríum.
Ekki er hægt að fullyrða að veðrið sé einhver hvati til aukins aksturs milli landshluta en merkja má einhverja fylgni með góðu veðri og aukinni umferð um Austurland. Þannig var meðalhiti á Egilsstöðum í júní 2013 tveimur gráðum yfir meðallagi og með hærri meðalgildum á landinu. Aukning umferðar frá árinu áður var 18,2 prósent.
Sömu sögu er að segja um árið 2014 þegar meðalhiti á Egilsstöðum var 2,5 gráðum yfir meðallagi í júní. Umferð um svæðið jókst þá um 16,7 prósent frá árinu áður.
Á vef Veðurstofunnar má lesa að veðurfar í júní var nokkuð leiðinlegt og hiti undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Að tiltölu var þó hlýjast á Austfjörðum en mjög kalt suðvestanlands og sérstaklega kalt á hálendinu. Umferð jókst í takt við þetta hlutfallslega mest á Austurlandi.
Mikil uppbygging ferðaþjónustu á Austurlandi gæti spilað rullu, telur Stefán Bogi, enda hefur verið töluvert fjárfest í þjónustu fyrir ferðafólk í Fljótsdalshéraði. Gistirýmum hefur fjölgað og út frá því spretta veitingahús og annað slíkt. Markaðsmálin hafa jafnframt verið tekin fastari tökum eystra, en Stefán Bogi segir það hinsvegar ekki endilega skýra neitt enda sé samkeppnin mikil milli allra aðila ferðaþjónustunnar.
Árið 2015 stefnir í að verða mesta umferðarár í sögunni. (Mynd: Birgir Þór)