Með betri nýtingu á umframgetu raforkukerfisins væri hægt að knýja alla vöru- og farþegaflutninga á Íslandi með vetni án þess að virkja meira. Þó sé óraunhæft að full orkuskipti geti átt sér stað hérlendis án aukinnar orkuframleiðslu. Þetta kemur fram í skýrslu um fýsileika þess að framleiða rafeldsneyti innanlands, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í fyrrasumar.
„Engin spurning“ um fleiri virkjanir
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að ekki sé næg orka til fyrir orkuskiptin hérlendis. Þó sé ekki þörf á meiri orku strax, en á næstu 20-30 árum verði nauðsynlegt að finna leið til að nota allt að tíu terawattsstundir til viðbótar, sem jafngildir um 50 prósenta aukningu við núverandi notkun. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók undir þessi orð og sagði það vera „engin spurning“ um að virkja þyrfti meira til að tryggja orkuskiptin.
Samkvæmt Herði er ein af ástæðunum fyrir þessa auknu orkuþörf sú að framleiða þurfi sérstakt rafeldsneyti til að knýja stærri bíla, skip og flugvélar. Slíkt eldsneyti krefst meiri orku sem nýtist verr en bein nýting raforku.
Margar tegundir eldsneytis
Rafeldsneyti er samheiti yfir margar tegundir eldsneytis sem er framleitt úr hráefni og raforku og orkan úr eldsneytinu kemur að mestu eða öllu leyti úr raforkunni. Vetni er ein tegund slíks eldsneytis, en einnig er hægt að nota vetnið til að búa til rafammoníak, rafmetan, rafmetanól og rafolíu.
Í skýrslunni, sem var unnin af ráðgjafafyrirtækinu Icefuel, er farið yfir kosti og galla þessara eldsneytiskosta, en þær eru misdýrar og hafa mismikil áhrif á umhverfið.
Raforkuframleiðslan hérlendis hefði þurft að tvöfaldast ef rafeldsneyti hefði verið nýtt í stað allrar olíu sem var notuð árið 2019, samkvæmt skýrslunni. Þó er bætt við að aðrar leiðir séu mögulegar til að minnka þessa umframþörf af orku, líkt og t.d. rafvæðing bílaflotans, en rafeldsneyti fyrir bíla hefði annars krafist 6,4 gígawattsstundir.
Einnig stendur í skýrslunni að töluvert sé af ónýttri umframorku hérlendis, þar sem vatnsbúskapur er breytilegur á milli árstíða. Vegna hlýnunar og hraðari bráðnunar jökla megi gera ráð fyrir að þessi ónýtta umframorka eigi eftir að aukast.
Þessi ónýtta umframorka nemur um tveimur terawattsstundum í meðal vatnsári, samkvæmt Orkustofnun. Þetta er nóg til að framleiða um 35 þúsund tonn af vetni, en skýrslan segir það vera nóg til að knýja alla vöru- og farþegaflutninga á Íslandi.
Geta skipin gengið á repjuolíu?
Samkvæmt Icefuel myndi skipting fiskiskipa yfir í rafeldsneyti krefjast 3,4 gígawattsstunda af raforku. Í skýrslu verkfræðistofunnar EFLU frá árinu 2019 um orkuskipti skipaflotans kemur þó fram að lífeldsneyti, líkt og repjuolía, kæmi einnig til greina sem nýr orkugjafi fyrir skipin.
Í skýrslu EFLU segir að repjuolía, sem yrði framleidd með repjuræktun, gæti gengið beint á núverandi vélar skipanna án nokkurra breytinga. Auk þess væri tæknin við framleiðslu olíunnar vel þekkt og hægt væri að framleiða hana hér á landi.
Hins vegar er óvíst hversu mikill ávinningurinn yrði í losun kolefnis við slíka eldsneytisframleiðslu, sér í lagi ef framleitt yrði á framræstum mýrum. Skýrsla Icefuel gerir einnig ráð fyrir að lífeldsneyti líkt og repjuolían verði á einhverjum tímapunkti takmörkuð til að ýta ekki undir samkeppni um ræktarland til fæðuframleiðslu.