Jho Low, ungur fjárfestir frá Malasíu, hefur verið umsvifamikill í fasteignakaupum í New York frá því árið 2010 og hefur keypt hverja lúxusíbúðina á fætur annarri, og selt hana síðan áfram til stjúpsonar forsætisráðherra Malasíu, Riza Aziz. Hann er kvikmyndagerðarmaður og framleiðandi, en var ekki þekktur sem umsvifamikill fjárfestir í fasteignum þar til um helgina.
New York Times birti þá ítarlega grein sem blaðamenn ritstjórnar blaðsins hafa unnið að mánuðum saman, þar sem farið er yfir umsvifamikil fasteignaviðskipti ungu mannanna frá Malasíu á Manhattan. Frekari umfjöllun um fasteignaviðskipti auðjöfra frá Indlandi, Mexíkó og Rússlandi á Manhattan, er boðuð út þessa viku.
Í greininni í New York Times kemur fram að Low, sem er 33 ára gamall, hafi keypt fjölda fasteigna í gegnum skúffufélag, og selt þær síðan áfram til félags sem er í eigu fyrrnefnd Aziz. Um er að ræða nokkur viðskipti upp á að minnsta kosta 100 milljónir Bandaríkjadala samtals, eða sem nemur um 13 milljörðum króna.
Low hefur lifað hátt og þræðir næturklúbba í New York með fulla vasa fjár og hefur verið kallaður „hvalurinn“. Hann er tíður gestur á lúxusklúbbunum Pink Elephant og 1Oak, hefur meðal annars sést skemmta sér með Paris Hilton (lengst til vinstri á mynd), sem aldrei er langt undan þegar lúxuslífernið á næturklúbbunum er annars vegar.
Spurningar hafa vaknað um hvar Low fái peningana, og virðast þræðirnir liggja til fjölskyldu forsætisráðherra Malaísu, Najib Razak, að því er fram kemur í New York Times. Virðist sem Low sé leppur í fasteignakaupum í New York fyrir vellauðuga fjölskyldu forsætsráðherra, sem hefur verið undir miklum pólitískum þrýstingi heima fyrir að undanförnu, ekki síst vegna bágs efnahagsástands.