Í dag var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu undir yfirskriftinni „Þjóðareign,“ þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu væntanlegum lögum um úthlutun makrílkvóta, verði stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra, samþykkt á Alþingi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hópi fólks sem stendur að undirskriftasöfnuninni og send var á fjölmiðla í dag, en undir hana rita meðal annars Guðrún Pétursdóttir, lífeðlisfræðingur og fyrrum forsetaframbjóðandi, Henný Hinz, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, og Jón Steinsson, hagfræðingur.
Í fréttatilkynningunni segir meðal annars:
„Stjórnarfrumvarp það sem lagt hefur verið fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta til útgerðamanna til sex ára, hið skemmsta, felur í sér grundvallarbreytingu á tilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Verði frumvarpið að lögum er útgerðinni í fyrsta sinn veitt óafturkallanlegt forræði yfir aflaheimildum til lengri tíma en eins árs og Alþingi getur í reynd ekki afturkallað þá ráðstöfun. Um leið leggja stjórnvöld til að veiðigjöld verði ákveðin til þriggja ára sem aftur bindur hendur Alþingis fram yfir næstu kosningar.
Lagasetning af þessu tagi kemur í veg fyrir að unnt sé að kveða á um skilyrðislaust eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni með ákvæði í stjórnarskrá sem jafnframt tryggi að þjóðin njóti fulls gjalds af afnotum á auðlindinni.“
Þá segir í áskoruninni til forseta Íslands, sem fólk er hvatt til að leggja nafn sitt við.
„Við undirrituð skorum á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“