Stjórnvöld í Ungverjalandi lýstu í dag yfir neyðarástandi í tveimur sýslum við landamæri Serbíu í suðurhluta landsins. Með því að lýsa yfir neyðarástandi er herliði landsins heimilað að aðstoða lögregluna við landamæraeftirlit og aðrar skyldur sem tengjast straumi flóttamanna til landsins.
Mikið hefur gengið á við landamæri Ungverjalands og ástandið þar eldfimt. Í gær tóku í gildi strangari lög um flóttafólk sem refsivæða það að fara ólöglega inn í landið og heimila þannig lögreglunni að handtaka hvern þann sem reynir að komast yfir girðinguna sem liggur við landamæri Serbíu og Ungverjalands.
Að sögn ungverskra stjórnvalda komu yfir níu þúsund flóttamenn inn í landið í gær, á mánudag, og er það nýtt met. Á miðnætti tóku í gildi hertari lög og landamærunum var lokað.
Gyorgy Bakondi, sérstakur varnarmálaráðgjafi forsætisráðherra landsins, tilkynnti í dag að sérstakt svæði hafi verið skilgreint fyrir flóttamenn við landamærin. Þeir sem koma þangað og óski eftir hæli verði sendir til baka til Serbíu. Skilgreinda svæðið er lagalega ekki Ungverjaland, sagði Bakondi við blaðamenn í dag, samkvæmt frásögn The Guardian.
Bakondi sagði að fjöldi Sýrlendinga sem hafi komið inn í Ungverjaland á síðustu þremur mánuðum sé 66.896. Hann benti á að flóttamenn frá 74 öðrum löndum hafi komið til landsins á sama tímabili, þar á meðal 32.900 frá Afganistan og 3.630 frá Írak. Alls hafa 171 þúsund manns óskað eftir hæli á síðustu þremur mánuðum. Aðeins 300 hefur verið veitt hæli á sama tíma og 4.000 hefur verið synjað og sendir úr landi. Umsóknarferli 65 þúsund annarra hefur verið hætt vegna þess að umsækjendur „hurfu“, sagði Bakondi blaðamönnum. Um 95 þúsund umsóknir eru nú til skoðunar.
Engin niðurstaða fékkst á ráðherrafundi Evrópusambandslanda og Schengen-ríkja um málefni flóttamanna í gær. Tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að 120 þúsund flóttamönnum, sem nú halda til í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi, verði dreift um álfuna með bindnandi kvótum, náði ekki fram að ganga. Ákveðið hefur verið að 40 þúsund flóttamenn flytjist frá Ítalíu og Grikklandi en að öðru leyti standa viðræður ríkjanna óleystar.