Petra László, ungverska kvikmyndatökukonan sem var mynduð þegar hún sparkaði í flóttabörn og felldi flóttamann við landamæri Ungverjalands og Serbíu í bænum Röszke, hefur beðist afsökunar á athæfi sínu. Hún segist ekki vita hvað kom yfir sig, hún hafi einfaldlega brjálast um stund.
Kvikmyndatökukonan biðst afsökunar í grein í ungverska dagblaðinu Magyar Nemzet í dag og The Guardian greinir frá. Hún segist hafa átt erfiða daga frá atvikinu, trúi ekki eigin gjörðum og þverneitar því að hún sé rasisti. „Tökuvélin var í gangi, hundruð flóttamanna brutust í gegnum varnir lögreglunnar, einn þeirra hljóp að mér og ég varð hrædd,“ skrifar hún. Næst hafi hún einfaldlega brjálast um stund. Hún taldi að ráðist væri að sér og tók því til varna. „Það er erfitt að taka rétta ákvörðun á tímum þegar fólk er hrætt.“
László var í kjölfar atviksins rekinn af ungversku sjónvarpsstöðinni N1TV og í gær tilkynnti saksóknari í Ungverjalandi að meint glæpsamlegt athæfi hennar sé til rannsóknar. Konan segir að gríðarleg óvild í hennar garð í fjölmiðlum eigi ekki rétt á sér, hún sé reiðubúinn að taka ábyrgð á gjörum sínum en hún sé ekki rasisti, heldur atvinnulaus móðir.
Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.