UNICEF, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og öll stærstu hjálparsamtök heims leggja þunga áherslu á að ættleiðingar milli lands séu alltaf seinasta úrræði. Þetta segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi í færslu á Facebook í dag, þar sem hann spyr og fjallar um hversu brýnt sé í dag að ættleiða börn frá Sýrlandi.
„Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á barn rétt á að umgangast fjölskyldu sína – nema annað sé því fyrir bestu. Munaðarlaus börn eiga nefnilega líka fjölskyldur. Þau eiga langoftast móðursystur, föðurbræður, afa og ömmur. Það sama á við um fylgdarlausu börnin sem við heyrum mikið af í fjölmiðlum þessa dagana og hafa mörg komið til Evrópu,“ skrifar Bergsteinn. Börnin þurfa hjálp við að sameinast fjölskyldum sínum, skrifar Bergsteinn, og þeim sé best hjálpað með því að bjóða bæði þeim og fjölskyldum þeirra til landsins.
Færslu Bergsteins má lesa hér að neðan.
Hversu brýnt er að ættleiða börn frá Sýrlandi, eins og staðan er í dag? UNICEF, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna,...Posted by Bergsteinn Jónsson on Wednesday, 9 September 2015
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fjallaði um málefni flóttamanna í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær og sagði það íslenskum stjórnvöldum mikilvægt að brugðist verði við vandanum eins og kostur er. Hann nefndi sem dæmi að meta þyrfti hvort hægt væri að einfalda ættleiðingar barna frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum til Íslands.
„Íslensk stjórnvöld telja feykilega mikilvægt að við og aðrar þjóðir bregðumst eins vel við þessum vanda og kostur er. Úrlausnarefnið er gríðarlega umfangsmikið. Við munum þurfa að auka framlög til málaflokksins umtalsvert og aðlaga undirbúningsvinnu þróuninni að undanförnu. Við erum eflaust öll sammála um að við eigum að leggja áherslu á að nýta möguleika okkar til að framkvæma sem best skyldu okkar og vilja til að aðstoða fólk í neyð eftir bestu getu,“ sagði Sigmundur Davíð.