Bandaríska kvikmyndaverið Universal hefur keypt handritið að dramatískri víkingaspennumynd sem leikstjórinn Baltasar Kormákur og Ólafur Egilsson hafa unnið að í nálægt áratug. Myndin á að heita Vikingr. Frá þessu er greint á vef Hollywood Reporter í kvöld.
Baltasar verður einnig einn af framleiðendum myndarinnar þegar hún verður gerð. Hann er ekki ókunnugur því að vinna með Universal því hann gerði spennumyndirnar Contraband (endurgerð af Reykjavík Rotterdam) og 2 Guns fyrir kvikmyndaverið. Báðar gengu þær ákaflega vel og skiluðu góðum arði. Universal er á meðal stærstu kvikmyndaframleiðenda í heiminum.
Í frétt Hollywood Reporter segir að Vikingr standi Baltasar mjög nærri þar sem sagan snúist um árdaga víkingalífs og byggi að hluta til á Íslendingasögunum.