Verið er að leggja lokahönd á stofnun Atvinnufjélagsins, nýs hagsmunafélags atvinnurekenda sem helgað verður starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Í fréttatilkynningu frá undirbúningsstjórn félagsins segir að talsvert hafi skort á sýnileika og hagsmunagæslu hjá þessum hluta vinnumarkaðarins þrátt fyrir að liðlega 70 prósent starfsfólks á vinnumarkaði starfi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og að um 70 prósent atvinnurekenda telji þörf á slíku félagi, samkvæmt könnun sem undirbúningsstjórnin lét Prósent framkvæmda í júnímánuði.
Öfugt við sum önnur hagsmunasamtök á vinnumarkaði mun lýðræðisgrunnur Atvinnufjélagsins byggja á jöfnu atkvæðavægi, þannig að hvert fyrirtæki hafi eitt atkvæði óháð stærð. Aðild að Atvinnufjélaginu mun þó ekki koma í veg fyrir aðild að öðrum samtökum atvinnurekenda.
Í tilkynningu segir að tilgangur og markmið félagsins snúist aðallega um þrjá þætti.
- Að berjast fyrir einfaldara og sanngjarnara regluverki, að opinberar álögur og gjöld, leyfisveitingar og skattlagning taki mið af stærð félaga og rekstrarumfangi.
- Það þarf að bæta aðgengi að fjármagni, vextir og veðkröfur eru litlum og meðalstórum fyrirtækjum mjög íþyngjandi.
- Þá þurfa kjaramál að taka betur mið af hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja m.a. í atvinnugreinum sem voru ekki öflugar fyrir einum til tveimur áratugum svo sem fyrirtæki í ferðaþjónustu, veitingastarfsemi, skapandi greinum, afþreyingu og margs konar nýsköpunarstarfsemi og þjónustu.
Í tilkynningu Atvinnufjélagsins segir að það halli að mörgu leyti á smærri fyrirtæki þegar litið sé til þess starfsumhverfis sem skapað hafi verið hér á landi.
„Að mati undirbúningsstjórnar bíða Atvinnufjélagsins því mörg brýn verkefni. Sem dæmi má nefna þá flötu opinberu gjaldtöku sem tíðkast hér á landi, s.s. á vegum eftirlitsstofnana og ríkissjóðs. Þessi flata framkvæmd leggst hlutfallslega þyngra á smærri fyrirtæki og skapar með því móti aðstöðumun sem leggst þyngra á rekstur smærri fyrirtækja. Til lengri tíma litið stuðlar þessi aðstöðumunur að einhæfara atvinnulífi, bitnar á starfsfólki smærri fyrirtækja og leiðir frekar til aukinnar fákeppni og minnkandi samkeppnishæfni í íslensku atvinnulífi,“ segir í tilkynningu félagsins.
Í undirbúningsstjórn Atvinnufjélagsins sitja þau Arna Þorsteinsdóttir, Auður Ýr Helgadóttir, Elísabet Jónsdóttir, Gunnar Ingi Arnarson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Ómar Pálmason, Sigmar Vilhjálmsson og Þorkell Sigurlaugsson.