Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Davíð Oddsson, fyrrum formann flokksins og ritstjóra Morgunblaðsins harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun fyrir breytta afstöðu gagnvart samstöðu vestrænna ríkja. Hún vitnar í tíu ára gamla ræðu hans þar sem Davíð sagði að samstaða vestrænna lýðræðisríkja innan NATO væri sú brjóstvörn sem „villimennska kommúnismans brotnaði á“. Í ræðunni sagði Davíð einnig að þörfin fyrir samstöðu væri engu minni en áður og að sameiginlegir hagsmunir sameiginleg gildi og sameiginleg saga reyndust öllu sundurlyndi sterkara. Unnur segir í stöðuuppfærslunni um ræðu Davíðs að innihald hennar hafi verið „vel mælt, eins margt annað hjá þeim manni. En ég vissi það ekki fyrr en í gær að hann meinti ekkert með þessu.“
Davíð gagnrýndi ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að styðja þvingunaraðgerðir gegn Rússum í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina. Þar skrifaði hann meðal annars: „Hvernig gat það gerst að íslensk yfirvöld ákváðu að stefna álitlegum hluta íslensks útflutnings í stórhættu, af þeirri ástæðu einni að fréttir hefðu borist af því, að þriðji sendiráðsritari einhvers staðar hefði náð sambandi við eina aðstoðarskrifstofustjórann í íslenska utanríkisráðuneytinu, sem var í húsinu þegar hinn hringdi vegna málsins.“ Þar sagði Davíð einnig að binda þurfi enda á „þennan skaðlega flumbrugang“.
Davíð meinti ekkert með fyrri orðum
Í stöðuuppfærslunni í morgun segir Unnur Brá frá því að hún hafi fyrir tæpum áratug, þann 13. október 2005 hlýtt á ræðu manns sem hafi komist svo að orði:
Davíð Oddssos.
„Samstaða vestrænna lýðræðisríkja innan NATO var sú brjóstvörn sem villimennska kommúnismans brotnaði á. Heimsmyndin er nú breytt. Þær hættur sem stafa að lýðræðisríkjunum eru aðrar og margbrotnari en áður. Hryðjuverkamenn og skálkaríkin sem styðja þá eru ógn við frelsi okkar, líf okkar og limi. Þörfin á samstöðu er engu minni nú en áður. Það reyndi mjög á samstarfið innan NATO í aðdraganda Íraksstríðsins. Á þeim vettvangi höfum við Íslendingar verið í hópi þeirra þjóða sem lagt hafa áherslu á að ekki mætti veikja tengslin á milli Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna. NATO stóð af sér þessa prófraun. Sameiginlegir hagsmunir, sameiginleg gildi og sameiginleg saga reyndust öllu sundurlyndi yfirsterkara. Bandalagið er nú stærra en áður og mörg fyrrum ríki Austur - Evrópu njóta nú verndar og öryggis sem íbúar þeirra landa gátu ekki látið sig dreyma um fyrir örfáum árum. Okkur Íslendingum er það sérstakt ánægjuefni að þjóðir Eystrasaltsins eru nú orðnar fullgildir aðilar að bandalaginu. Innganga þeirra tryggði í sessi frelsi þeirra og varanlega lausn undan því grimmdar oki sem á þeim hafði hvílt áratugum saman.“
Unnur segir síðan: „Þetta var vel mælt, eins margt annað hjá þeim manni. En ég vissi það ekki fyrr en í gær að hann meinti ekkert með þessu.“
Fyrir tæpum áratug, hinn 13. október 2005, hlýddi ég á ræðu manns sem komst svo að orði:"Samstaða vestrænna lýðræðisrí...Posted by Unnur Brá Konráðsdóttir on Wednesday, August 19, 2015
Ræðubúturinn sem Unnur vitnar í er úr setningarræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október árið 2005. Þetta var síðasta landsfundaræða Davíð sem formanns en hann tilkynnti í aðdraganda þess landsfundar að hann myndi ekki gefa lengur kost á sér sem formaður og hætta afskiptum að stjórnmálum.