Þá er enn ein Airwaveshátíðin liðin undir lok og miðbær Reykjavíkur tæmist hægt og rólega af erlendum listamönnum og tónlistaraðdáendum.
Hátíðin í ár einkenndist af því sem virtist nær endalausum tónlistaratriðum (“off-venue” dagskrá hátíðarinnar var sú stærsta hingað til), ágætis veðri, löngum röðum og almennt góðri stemnningu.
Kjarninn lét sig ekki vanta og sá fjölmargar sveitir, en hér er það sem upp úr stóð hjá blaðamanni.
Börn, frændur og önnur snilld
Ein þeirra íslensku sveita sem hefur getið sér gott orð að undanförnu er nýleg rokksveit að nafni Börn. Hljómsveitin átti góða tónleika á Gauknum með ferskum tónum, flottri sviðsframkomu og beittum textum á hinu ástkæra ylhýra, sem er kærkomin tilbreyting þegar meira en helmingur íslenskra sveita syngur á ensku.
Frændur okkar frá Noregi, Tremolo Tarantura, spila einhverja samsuðu rokks og metals og komu skemmtilega á óvart á Gauknum. Tónlistin er nýstárleg og ekki oft sem maður heyrir skemmtilega blöndu ‘powermetal’ gítar-riffa og dauðarokks.
Samaris stóðu sig feikivel í Listasafni Reykjavíkur/Hafnarhúsinu þar sem þau spiluðu fyrir liggur við húsfylli sem hlýtur að teljast vel af sér vikið fyrir svo unga sveit. Ljóst er að mikill fókus er á þau sem næstu snilld sem Ísland sendir frá sér og var mikið af blaðamönnum og bransafólki á staðnum.
Í Gamla bíó/Íslensku óperunni (sem sumir hafa tekið upp á því að kalla “hið nýja Nasa” eftir Airwaves) mátti sjá Ástralana í King Gizzard & The Lizard Wizard í miklu stuði með hressandi progg-bræðing sem virtist fara vel í viðstadda.
Finni á troðfullum Kaffibar og umdeildir tónleikar
Ibibio Soundsystem hristu heldur betur upp í Hafnarhúsinu og fengu áhorfendur með sér í dansbrjálæði með hressandi heimstónlist sinni.
Stuðsveitin Boogie Trouble lék á alls oddi í Iðnó fyrir pökkuðum sal og uppskar sjaldgæft Airwaves-uppklapp fyrir.
Hinn finnski Jaakko Eino Kalevi spilaði heillengi á troðfullum Kaffibar að degi til og náði röðin langt upp á Laugaveg. Hann var frábær, virtist vera í góðu stuði og með fínu hljóði og skemmtilegri tónlist sinni smitaði hann áhorfendur í roknastuð.
þó á undirrituð erfitt með að halda því fram að um tónleika hafi verið að ræða og mætti þá frekar lýsa því sem fram fór í Silfurbergi sem einhverskonar dans-rútínu með fyrirfram uppteknum undirleik.
Lokatónleikar The Knife á laugardagskvöldinu voru afar umdeildir. Vissulega var gaman að sjá síðustu tónleika þessarar framsæknu og merkilegu sveitar, en þó á undirrituð erfitt með að halda því fram að um tónleika hafi verið að ræða og mætti þá frekar lýsa því sem fram fór í Silfurbergi sem einhverskonar dans-rútínu með fyrirfram uppteknum undirleik.
Viðburður The Knife var meira í ætt við dansrútínu með fyrirtfram uppteknum undirleik en tónleika.
Á sama tíma og lengsta röð sem undirrituð hefur á ævinni séð myndaðist í Hörpu vegna tónleika The Knife tróð hin bandaríska Kelela upp á Húrra þar sem fleiri hefðu komist að en voru inni og er það miður. Hún var flott, helst til í lágstemmdari kantinum þó og hefði verið gaman að sjá hana með fullri hljómsveit.
Caribou sigurvegarar laugardagskvöldsins
Caribou voru ótvíræðir sigurvegarar laugardagskvöldsins. Sveitin er frábær á sviði og platan „Our Love” sem kom út í október er virkilega flott verk – því var ekki slæmur kokteill að sjá hljómsveitina spila lög af henni fyrir fullu Hafnarhúsi. Stemningin var heit og sveitt og ást, gleði og dans einkenndi tónleikana.
Caribou voru ótvíræðir sigurvegarar laugardagskvöldsins að mati blaðamanns Kjarnans.
Sannkölluð sunnudagsstemning var í vel sóttri Vodafonehöllinni á tónleikum The War On Drugs og sást það meðal annars með arfaslöku lófataki bugaðra hátíðagesta í lok tónleika þeirra. Sveitin skilaði þó sínu vel, liðsmenn hennar voru afar þéttir og létu minniháttar hljóðtruflanir lítið á sig fá.
Wayne Coyne, söngvari sveitarinnar er frábær frontmaður og mikill sjarmör sem náði að rífa upp syfjaða stemningu Vodafonehallarinnar svo um munaði.
Lokatónleikar hátíðarinnar voru jafnframt hápunktur hennar og þarf það ekki að koma þeim á óvart sem hafa séð Flaming Lips á sviði áður. Tónleikar sveitarinnar eru iðulega meira en bara tónleikar, þeir eru upplifun. Wayne Coyne, söngvari sveitarinnar er frábær frontmaður og mikill sjarmör sem náði að rífa upp syfjaða stemningu Vodafonehallarinnar svo um munaði. Eins og heyrir til tónleika Flaming Lips fylltist svæðið af grímuklæddum dönsurum, uppblásnum blöðrum og búningum – og öllu heimsins konfettíi. Áhorfendur hrifust með og brostu sínu breiðasta og virtist litlu skipta að sveitin hefur spilað á Airwaves áður (enda fimmtán ár síðan). Fullkominn endir á hátíðinni og er ekki annað að sjá en að virki vel að enda Airwaves á stórtónleikum á sunnudegi eins og hefur verið gert undanfarin ár.
Langar raðir settu svip sinn á hátíðina í ár.
Allt í allt var hátíðin í ár afar vel heppnuð og eiga aðstandendur hrós skilið. Þrátt fyrir að hljómsveitir hafi hætt við framkomu á síðustu stundu og langar raðir (vandamál sem virðist vera vonlaust að leysa þrátt fyrir ýmiss konar skipulag) voru gestir í miklu stuði og gleði við völd.
Takk fyrir tónlistina – áfram Airwaves!