Niðurstöður borgarstjórnarkosninganna sem haldnar voru síðastliðinn laugardag komu mörgum í opna skjöldu, en niðurstaða þeirra var töluvert frá því sem skoðanakannanir höfðu spáð. Þeim flokkum sem stýra ríkisstjórn landsins gekk mun betur en spár höfðu gert ráð fyrir en Bjartri framtíð og Pírötum mun verr. Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði, var búin að nema þessa breytingu á fylgi allra flokka nema Sjálfstæðisflokks. Hann hafði dalað í síðustu spám okkar. Frávik þeirra skoðanakannanna sem kosningaspá Kjarnans byggði á var ívið meira frá kosningaúrslitunum en í kosningunum 2010, 2006 og 2002.
Á heimasíðu sinni, kosningaspa.is, segir Baldur að „Eitt helsta markmið kosningaspárinnar er að setja upplýsingar í samhengi. Taka saman fyrirliggjandi skoðanakannanir og gefa þeim áreiðanlegri meira vægi í spá um úrslit kosninga. Þegar frávik kannana frá úrslitnum eru borið saman við það vægi sem kannanirnar fengu í loka spá fyrir kosningarnar sést að þetta markmið tókst. Könnunin sem fékk mest vægi spánni reyndist vera með minnst frávik frá úrslitunum. Könnunin sem fékk næst mest vægi reyndist með næst minnst frávik, og svo koll af kolli. Forspárgildi vægis í kosningaspá í fyrstu keyrslu er því ásættanlegt. Nú þegar úrslit liggja fyrir hefst vinna við aðra ítrun á reiknilíkaninu sem kosningaspáin byggir á."
Þróun á fylgi framboðanna
Kosningaspá keyrð frá 26. febrúar til 30. maí 2014. Síðustu tölur eru niðurstöður kosninga.
[visualizer id="4616"]
Ljóst er að allar kannanir vanmátu fylgi Framsóknarflokks og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks. Sömuleiðis ofmátu allar kannanir fylgi Bjartrar framtíðar og Pírata. Kosningsspáin mældi vel þá fylgisaukningu sem bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin fengu í kosningabaráttunni og það skarpa fall sem varð í stuðningi við Bjarta framtíð og Pírata á lokametrunum. Fylgi við báða flokka var hins vegar ofmetið í könnunum. Þá reyndist raunfylgi Sjálfstæðisflokks vera töluvert meira en kannanir höfðu gert ráð fyrir.
Fjöldi fulltrúa í borgarstjórn
[visualizer id="4611"]
Meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, sem tók við keflinu af Besta flokknum, hélt ekki velli. Flokkarnir hafa nú sjö fulltrúa og af þeim hefur Samfylking fimm. Mestu tíðindin varðandi fjölda fulltrúa eru þau að Framsókn og flugvallarvinir náðu inn tveimur fulltrúum, eða jafn mörgum og Björt framtíð sem hafði aldrei mælst með færri en þrjá í könnunum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar manni frá síðustu kosningum og Píratar munu eiga borgarfulltrúa í fyrsta sinn. Meirihlutaviðræður eru hafnar milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um að mynda níu manna meirihluta.
Fylgi stjórnaðist af kjörsókn
Á föstudag lét Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hafa eftir sér í fréttum RÚV að kjörsókn gæti haft áhrif á dreifingu fylgisins í Reykjavík. Hann hafði rétt fyrir sér. Kjörsókn í borgarstjórnarkosingunum 2010 var aðeins 73,4 prósent, sú minnsta í borginni frá upphafi. Kjörsókn á landsvísu árið 2010 var jafnframt sú minnsta allra tíma í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Kjörsókn var enn verri á laugardag, eða 62,7 prósent. Það er versta kjörsókn í Reykjavík síðan 1928.