Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, gagnrýnir ritstjórnarpistil Morgunblaðsins um niðurstöður könnunar sem framkvæmd var fyrir Strætó fyrr á árinu. Hann segir að túlkun höfundar skoðanadálksins Staksteina á henni haldi engu vatni.
Staksteinar gera sér í dag mat úr einni spurningu í könnun Zenter fyrir Strætó, sem framkvæmd var í mars. Um opna spurningu var að ræða þar sem spurt var: „Hvað gæti Strætó gert, ef eitthvað, til að þú myndir ferðast (oftar) með Strætó?“ og gátu svarendur skrifað hvað sem þeim í datt í hug.
Í skoðanadálki Morgunblaðsins var framsetningin á niðurstöðunum með þeim hætti að sökum þess að einungis 1,3 prósent svarenda könnunarinnar nefndu Borgarlínu í þessari opnu spurningu teldu hin 98,7 prósent svarenda að Borgarlína og sú fjárfesting sem er fyrirhuguð hennar vegna höfuðborgarsvæðinu myndi ekki gagnast þeim með neinum hætti.
„Fyrir verkefni sem hefur verið lengi í undirbúningi og á samkvæmt áætlunum að kosta tugi milljarða hið minnsta og líklega vel á annað hundrað milljarða, þá má það teljast fremur rýr afrakstur að 1,3% telji verkefnið til bóta fyrir sig,“ segir meðal annars í Staksteinum.
Nýtt leiðanet og Borgarlína fjölgi ferðum og bæti leiðakerfið
Guðmundur Heiðar bendir á það í færslu á Facebook, sem raunin er, að flestir svarenda, eða tæp 30 prósent, hefðu nefnt að fleiri ferðir eða aukin tíðni ferða gæti orðið til þess að þeir ferðuðust oftar með strætó. Næstflestir hafi síðan bent á að betra leiðakerfi Strætó gæti leitt til þess sama.
Hann segir í færslu sinni að þetta séu einmitt atriði sem standi til bóta með Nýju leiðaneti Strætó og tilkomu Borgarlínu.
„Í þessari könnun er ekki hægt að fullyrða neitt um hversu margir hafa trú á Borgarlínunni. Það er hvergi spurt um hversu margir telja að þau muni nota Borgarlínuna eða hafa trú á henni. Þessi könnun snýst í raun ekkert um Borgarlínu. Hún snýst um Strætó.
Ég veit að Staksteinar er nafnlaus skoðanapistill, en það hlýtur að vera meiri „standard“ hjá ritstjórn eins stærsta fjölmiðils landsins,“ skrifar Guðmundur Heiðar.
Staksteinar Morgunblaðsins fá algjöra falleinkunn í talnalæsi í dag. Því er skellt fram að skv. könnun Strætó séu...
Posted by Guðmundur Heiðar Helgason on Wednesday, November 17, 2021