Fréttablaðið slær upp á forsíðu sinni frétt í dag, þar sem haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni fyrrverandi forstjóra Kaupþings, að bankinn hafi fengið 85 milljarða króna þrautavaralánið frá Seðlabanka Íslands 6. október 2008, án þess að gengið hafi verið frá veðinu í danska FIH-bankann eða lánaskjölum. Þessar upplýsingar, um fyrirkomulag lánveitingarinnar, hafa legið fyrir í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar frá 20. febrúar 2013.
Nokkru áður hafði Már Guðmundsson seðlabankastjóri veitt nefndinni upplýsingar um að verklagsreglur bankans hafi verið brotnar við lánveitinguna og einu gögnin sem til séu um hana sé frægt símtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, sama dag og lánið var veitt. Lánið til Kaupþings var án skilyrða og veitt gegn veði í danska bankanum FIH, sem var án veðbanda og kvaðalaust.
Þá segir í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar frá 20. febrúar á síðasta ári: "Ekki var gengið frá skriflegum lánssamningi á þessum degi, en kjörin á láninu voru að öðru leyti ákveðin þessi: Dagsetning viðskipta 6. október 2008, lánstími í dögum fjórir, nafnvextir 9,40%. [...] Lánssamningurinn átti að fylgja í kjölfarið, en vegna þeirrar atburðarásar sem fór af stað eftir setningu neyðarlaganna var hann aldrei gerður."
Þá kemur fram í fyrrgreindri skýrslu meirihluta fjárlaganefndar að ekki hafi verið gerð sérstök bankastjórasamþykkt vegna lánveitingarinnar. Í svari Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, um hvort ekki hafi verið farið að verklagsreglum Seðlabankans um þrautavaralán við lánveitinguna, segir: "Þegar reglur um verklag í neyðarástandi eru samdar liggur ekki fyrir hvernig aðstæður munu raunverulega vera þegar á reynir. Aðstæður þann 6. október voru með þeim hætti að enginn tími var til að fylgja verklagsreglunum formlega eftir. Öll meðferð málsins og ákvarðanataka var hjá æðstu stjórn bankans. Öll áhersla var lögð á að tryggja réttarstöðu Seðlabankans með því að veðsetning tækist. […] Lántaka Kaupþings þ. 6. október 2008 bar ákaflega brátt að og því vannst ekki tími til að kanna hver staða Seðlabankans væri varðandi fullnustu á veðinu, þ.e. að ganga að hlutafé bankans, enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum og það átti að endurgreiða 4 dögum síðar. Það má teljast ólíklegt að FIH bankinn hefði veitt Seðlabankanum aðgang að lánasamningum sínum við framkvæmd vegna trúnaðar við lánveitendur sína.
Með lánveitingunni var stærsta hluta gjaldeyrisvaraforða Íslands á þeim tíma ráðstafað til Kaupþings, en bankinn var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu þremur dögum síðar, eða þann 9. októer 2008. Tap íslenskra skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar nemur 35 milljörðum króna.
Undir skýrslu fjárlaganefndar frá 20. febrúar 2013 rita þingmennirnir Björn Valur Gíslason, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Valgerður Bjarnadóttir, Lúðvík Geirsson og Höskuldur Þórhallsson.