Stjórn Eimskips tilkynnti ekki Kauphöllinni um að starfsmenn fyrirtækisins hefðu verið kærðir til Sérstaks saksóknara af Samkeppniseftirlitinu, fyrir meint samkeppnislagabrot, fyrr en í september. Stjórnendur Eimskips voru hins vegar upplýstir um tilurð kærunnar í sumar.
Gengi bréfa í Eimskipum hefur fallið um 6,5 prósent frá því að Kastljós RÚV greindi frá meintum samkeppnislagabrotum félagsins og Samskipa. Alls hefur markaðsvirði Eimskipa fallið um þrjá milljarða króna á þremur dögum.
Verðfallið áyggjuefni
Íslenskir lífeyrissjóðir eru fyrirferðarmiklir á meðal hluthafa Eimskips. Þannig á Lífeyrissjóður verzlunarmanna 14,57 prósenta hlut, hlutur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nemur 11,19 prósentum og fleiri lífeyrissjóðir eiga minni hlut. Helgi Magnússon, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir Eimskip ekki hafa upplýst sjóðinn um fyrrgreinda rannsókn.
Maríanna Jónasdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir slíkt hið sama. Eimskip hafi ekki upplýst sjóðinn um kæru Samkeppniseftirlitsins til Sérstaks saksókara. Hún segir verðfall á hlutabréfum Eimskips mikið áhyggjuefni, og hyggst ræða stöðuna á næsta fundi lífeyrissjóðsins á mánudag.
Upplýsingar sem vörðuðu markaðinn
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segist fyrst hafa frétt af kæru Samkeppniseftirlitsins í Kastljósinu. "Í kjölfar umfjöllunarinnar höfðum við samband við Eimskip, sem svo sendi frá sér fréttatilkynningu vegna málsins." Hann segir að Kauphöllin muni nú fara vel yfir allar þær upplýsingar sem Eimskip hafði undir höndum varðandi rannsóknina. Aðspurður um hvort ekki hafi verið um verðmyndandi upplýsingar að ræða sem Eimskip hefðu átt að tilkynna Kauphöllinni um, svaraði hann: "Almennt séð tel ég að þetta séu upplýsingar sem hafa áhrif á markaðinn, það er að þessi vitneskja varði markaðsaðila."