Forsvarsmenn 365 miðla sendu nýjar upplýsingar um eignarhald á fyrirtækinu til fjölmiðlanefndar í gær. Að sögn Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra nefndarinnar voru upplýsingarnar ekki fullnægjandi. „Því hefur verið óskað eftir ítarlegri upplýsingum um eignarhald 365 miðla. Upplýsingarnar eru því ekki aðgengilegar á vef nefndarinnar eins og er,“ segir Elfa.
Þann 18. desember síðastliðinn óskaði fjölmiðlanefnd eftir frekari upplýsingum um eignarhald Auðar 1, sjóðs sem stýrt er af fjarmálafyrirtækinu Virðingu. Auður 1 á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum en forsvarsmenn 365 miðla hafa ekki viljað upplýsa fjölmiðlanefnd um endanlega eigendur að sjóðnum.
Kjarninn greindi frá því 29. desember að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Almenni lífeyrissjóðurinn séu á meðal ellefu lífeyrissjóða sem eru nú óbeinir eigendur að hlut í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum í gegnum Auði 1 fagfjárfestingasjóð. Alls eru eigendur sjóðsins 26 talsins.
Einn þeirra, AC eignarhald hf., á meira en tíu prósent hlut í sjóðnum. Það er félag í eigu margra stærstu hluthafa og stjórnenda Virðingar, fjármálafyrirtækinu sem stýrir Auði 1 sjóðnum. Þetta kemur fram í ársreikningi Auðar 1 fyrir árið 2013 sem Kjarninn hefur undir höndum.
Ætlaði ekki að kalla eftir frekari upplýsingum
Undir lok síðasta árs var send út tilkynning um að 365 miðlar, langstærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, og Tal hafi sameinast undir merkjum 365 eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna, með skilyrðum. Við það eignuðust fyrrum hluthafar Tals 19,8 prósent hlut í sameinuðu félagi, sem mun bera nafn 365 miðla. Stærsti eigandi Tals er Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá fjölmiðlanefnd um hvort kallað hefði verið eftir upplýsingum um hvert endanlegt eignarhald á sjóðnum Auður 1 væri, enda segir í fjölmiðlalögum að nefndin eigi að fá allar upplýsingar og gögn svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Þau svör fengust að nefndin hefði leitað eftir upplýsingum haustið 2014. Þar fengust þær upplýsinga að starfsmenn Virðingar væru stjórnarmenn í Auði 1 og héldi á meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Því skiptu eigendur sjóðsins ekki máli. Það var því mat nefndarinnar að sækjast ekki eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið.
Kjarninn fjallaði um málið í kjölfarið og degi síðar hafi fjölmiðlanefnd skipt um skoðun og kallaði eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið. 365 miðlum fékk frest til að svara þar til í gær, 5. janúar. Svarið sem barst þótti ekki fullnægjandi og því hefur fjölmiðlanefnd óskað eftir frekari upplýsingum.