Birting upplýsinga um veltu á fasteignamarkaði og fjölda þinglýstra kaupsamninga á vefsíðu Þjóðskrár Íslands hefur verið frestað þar til verkfall starfsmanna SFR hjá sýslumannsembættum leysist. Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár. Undir venjulegum kringumstæðum eru upplýsingar birtar vikulega um veltu og fjölda samninga á höfuðborgarsvæðinu, auk þess upplýsingar um fasteignaviðskipti utan höfuðborgarsvæðisins og verðþróun eru birtar mánaðarlega.
Þetta er í annað sinn á árinu sem markaðsupplýsingar eru ekki birtar vegna verkfalla. Lögfræðingar hjá sýslumönnum voru frá vinnu í á þriðja mánuð síðastliðið vor og sumar, þegar verkfallsaðgerðir BHM stóðu yfir. Á þeim tíma birtust engar uppfærðar upplýsingar um þróun á fasteignamarkaði, en kaupsamningar biðu þá þinglýsingar og hrönnuðust upp.
Verkfallsaðgerðir SFR standa yfir dagana 15., 16., 19. og 20. október. Áhrif á starfsemi Þjóðskrár eru meðal annars þau að vegabréf eru ekki gefin út og vottorð úr þjóðskrá er ekki hægt að vinna né gefa út.