Hlutfall íbúa sem eru á leigumarkaðnum hefur minnkað töluvert frá árinu 2019, sérstaklega hjá yngstu aldurshópunum. Sömuleiðis kjósa mun fleiri á aldrinum 18-24 ára að búa í foreldrahúsum en þeir gerðu fyrir tveimur árum síðan. Þetta kemur fram í nýrri könnun á vegum hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stöðuna á leigumarkaði.
Samkvæmt könnuninni hefur kórónuveirufaraldurinn haft mikil áhrif á leigumarkaðinn, en hlutfall leigjenda hefur minnkað um rúman fjórðung – úr 18 prósentum í 13 prósent – frá árinu 2019. Stofnunin segir að skýringuna fyrir þessum sviptingum megi líklega rekja til þess að leigjendur fóru af leigumarkaði og annað hvort í eigið húsnæði eða annað, svo sem í foreldrahús.
Ef þróun búsetu er skoðuð eftir aldurshópum sést að ungu fólki hefur fækkað mest á leigumarkaðnum. Alls eru leigjendur á aldrinum 18-24 ára rúmlega 15 prósentum færri en þeir voru fyrir tveimur árum síðan, en samsvarandi fækkun leigjenda á aldrinum 25-34 ára nam 5 prósentum. Litlar breytingar eru aftur á móti í búsetutilhögun þeirra sem eru eldri en 34 ára.
Á meðan ungum leigjendum hefur fækkað hefur þeim fjölgað töluvert sem búa í foreldrahúsum, en hlutfall ungmenna undir 25 ára aldri sem kjósa það hefur aukist um tæp 16 prósent á síðustu tveimur árum.
Erfiðara að verða sér úti um húsnæði
Þrátt fyrir þessa mikla fækkun hefur þeim fjölgað sem vilja frekar búa í leiguhúsnæði, en samkvæmt könnuninni myndu um 12 prósent húsnæðismarkaðarins nú frekar leigja heldur en kaupa ef nægilegt framboð væri af öruggu húsnæði. Samsvarandi hlutfall þeirra sem vilja leigja nam 9 prósentum í fyrra og 10 prósentum árið 2019.
Á sama sögðust fleiri leigjendur hafa átt erfitt með að verða sér úti um núverandi húsnæði í ár heldur en í fyrra, samkvæmt könnuninni. HMS segir þessa þróun vera vísbendingu um að framboð af leiguhúsnæði sé að minnka eftir að hafa aukist mjög í kjölfar faraldursins.
Samkvæmt stofnuninni má leiða að því líkur að stór hluti af þeim leiguíbúðum sem losnaði vegna samdráttar í Airbnb úteigu hafi farið í söluferli sökum ört hækkandi húsnæðisverðs. „Jafnframt hefur verið mikill aðflutningur fólks til Íslands sem eykur spurn eftir húsnæði og að öllum líkindum sér í lagi leiguhúsnæði.Jafnframt hefur verið mikill aðflutningur fólks til Íslands sem eykur spurn eftir húsnæði og að öllum líkindum sér í lagi leiguhúsnæði,“ segir HMS einnig í fréttatilkynningu sinni.