Gera má ráð fyrir því að urðun á dagblaða- og tímaritapappír hafi kostað SORPA, og skattgreiðendurna sem eiga fyrirtækið, um 15 til 30 milljónir króna á árinu 2014. Þar er um að ræða allan þann dagblaða- og tímaritapappír sem er ekki flokkaður í bláa tunnu og fer þar af leiðandi ekki í endurvinnslu, heldur er hent í gráu ruslatunnuna, hina svokölluðu orkutunnu. Þetta kemur fram í svari Björns Hafsteins Halldórssonar, framkvæmdastjóra SORPU, við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Samkvæmt rannsókn sem SORPA gerði í nóvember í fyrra má gera ráð fyrir því að pappír og pappi sé um 11,9 prósent af öllum úrgangi sem hent er í gráu tunnurnar. Sá úrgangur er allur urðaður og veldur því kostnaði. Björn segir dagblaða- og tímaritapappír vera lítinn hluta af þessum úrgangi. Að mestu sé um að ræða umbúðir. Sé gert ráð fyrir að að dagblaða- og tímaritapappír sé um 2,5 til 5,0 prósent af heildarmagninu megi gera ráð fyrir að urðun á þeim hluta hafi kostað á bilinu 15 til 30 milljónir króna á síðasta ári. Björn tekur það þó fram að fastlega megi gera ráð fyrir að þessi kostnaður lækki milli ára þar sem árangur í endurvinnslu sé alltaf að verða betri.
SORPA er byggðarsamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar. Kostnaður við urðun lendir því á skattgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu, sem reka SORPU.
Flest dagblöð og tímarit á Íslandi eru seld í áskrift og ræðst upplag þeirra af fjölda áskrifenda. Til viðbótar er nokkrum blöðum dreift frítt í stóru upplagi. Þar munar mest um Fréttablaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar, og Fréttatímann, sem kemur út einu sinni viku og er dreift frítt í 82 þúsund eintökum. Auk þess er ýmsum bæjarblöðum dreift frítt inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu.