Utanlandsferðir innanríkisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og starfsliðs hafa samtals kostað um 22,6 milljónir á kjörtímabilinu, frá því í maí 2013 til maíloka 2015. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur á tímabilinu farið í tólf utanlandsferðir ásamt starfsliði og nemur kostnaðurinn um 9,8 milljónum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, fór í ellefu utanlandsferðir í ráðherratíð sinni og Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra hefur farið tvær ferðir. Kostnaður vegna ferða þeirra tveggja nemur samtals um 12,7 milljónum á kjörtímabilinu.
Svör þessara ráðherra við fyrirspurnum Katrínar Júlíusdóttur um heildarkostnað við utanlandsferðir það sem af er kjörtímabilinu voru birt í dag. Dýrasta ferðin var átta daga ferð Ólafar Nordal auk aðstoðarmanns til Sendai í Japan vegna alþjóðlegrar hamfararáðstefnu. Tekið er fram að ferðin var farin að beiðni forsætisráðherra og kostaði alls tæplega 2,2 milljónir króna.
Dýrasta ferð Eyglóar auk aðstoðarmanns, sérfræðings og deildarstjóra var vegna kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna í New York borg í mars 2014. Alls nam kostnaður vegna ferðarinnar um 2,2 milljónum króna. Í mars á þessu ári sótti ráðherrann sama fund í New York borg og kostaði ferðin þá samtals um 1,8 milljónir króna en aðstoðarmaður var ekki með ráðherranum, sérfræðingnum og deildarstjóranum í það skiptið.
Þá hefur Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra farið í fimm utanlandsferðir á kjörtímabilinu. Kostnaður vegna ferða ráðherrans er um 1,2 milljónir króna en að meðtöldu starfsliði nemur kostnaður alls um 4 milljónum króna.