Brottfarir Íslendinga frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru 400 þúsund talsins á síðasta ári og fjölgaði um nærri tíu prósent milli ára. Utanlandsferðirnar 2014 voru ekki nærri jafn margar og þær voru árið 2007, þegar brottfarir voru 470 þúsund talsins. Þó náðist sá áfangi á síðasta ári að í fyrsta sinn frá hruni þá voru fleiri ferðir farnar í einstökum mánuði heldur en fyrir hrun. Það gerðist í september 2014. Þá fóru 37.100 Íslendingar fóru til útlanda í gegnum Leifsstöð, samanborið við 34.804 í september 2007. Þetta sýna tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Fjöldi utanlandsferða landsmanna í fyrra var á pari við árið 2008 og voru örlítið fleiri en árið 2006. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá fækkaði utanlandsferðum mikið í kjölfar hrunsins, eða um næstum helming milli áranna 2007 og 2009. Síðan þá hefur ferðum farið fjölgandi á nýjan leik.
Ferðamálastofa birti nýverið tölur um janúarmánuð á þessu ári, sem sýndu meðal annars metaðsókn erlendra ferðamanna til landsins í janúar. Hvað varðar brottfarir Íslendinga, þá fórum við svipað oft til útlanda í síðasta mánuði og við gerðum á sama tíma árið 2006. Grafið hér að neðan sýnir fjölda brottfara frá 2004 til 2015 í janúarmánuði ár hvert.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.