Það hafa verið miklir umbrotstímar í íslensku samfélagi undanfarin ár. Margt hefur áunnist í baráttunni við að endurreisa þar og efla. Í dag er til að mynda góður hagvöxtur, lítil verðbólga og lítið atvinnuleysi. Ákveðnir atvinnuvegir, sér í lagi sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eru í miklum sóknarham.
Ísland stendur hins vegar enn frammi fyrir risavöxnum vandamálum sem nauðsynlegt verður að takast á við í allra nánustu framtíð. Þeirri baráttu verður ekki frestað mikið lengur. Á þessum tímamótum Kjarnans þótti ritstjórn hans rétt að útlista þau fjögur helstu. Þau eru glíman við fjármagnshöft, breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, skjaldborg um heilbrigðiskerfið og staða Íslands í alþjóðasamfélaginu. Hér að neðan verður fjallað um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu.
Ísland og Evrópa
Íslenska þjóðin er einungis 0,0004 prósent af mannkyninu. Það er henni því mjög mikilvægt að vera í góðum samskiptum við að minnsta kosti hluta hinna 99,9996 prósentanna sem á jörðinni búa.
Lengi vel græddum við vel á hernaðarlega mikilvægri staðsetningu landsins og peningar dældust hingað inn vegna hennar. Sá veruleiki er farinn og nú snúast alþjóðasamskipti okkar fyrst og síðast um viðskiptalega hagsmuni.
Síðasta ríkisstjórn reyndi að fara með Ísland inn í Evrópusambandið á einum mestu umbrotatímum sem það hefur nokkru sinni gengið í gegnum. Sú vegferð var stöðvuð og núverandi ríkisstjórn mun ugglaust reyna allt sem í valdi hennar stendur til að grafa þá umsókn endanlega á þessu kjörtímabili. Það er þó fín lína að feta, enda fara um 80 prósent af útflutningi okkar til Evrópu og 60 prósent af því sem við flytjum inn koma þaðan.
Vilja efla EES-samstarf
Í staðinn fyrir að horfa á fulla aðild vill sitjandi ríkisstjórn efla samstarf Íslands við ríki Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gekk í gildi árið 1994. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur látið hafa það eftir sér opinberlega að efla verði hagsmunagæslu Íslands innan EES. Það verði gert með því að sjónarmið Íslands komi fram í löggjafarstarfi strax á fyrstu stigum málsins. Í Evrópustefnu Gunnars Braga er líka gert ráð fyrir stórefldu og góðu samstarfi við Norðmenn á vettvangi EES-samningsins.
Til útskýringar veitir EES-samningurinn Íslandi nokkurs konar aukaaðild að innri markaði Evrópu án tolla og gjalda á allflestar vörur. Samningurinn er því langmikilvægasti viðskiptasamningur þjóðarinnar.
Þegar Ísland undirgekkst EES-samninginn fyrir 20 árum samþykkti landið líka að innleiða hið ófrávíkjanlega fjórfrelsi ESB: innan svæðisins sem samningurinn nær til gildir frjálst flæði fólks, varnings, þjónustu og fjármagns.
Þegar Íslendingar innleiddu fjármagnshöft í kjölfar hrunsins brutu þeir gegn einni af þessum grunnstoðum, frjálsu flæði fjármagns. Hluti af aðildarferlinu að Evrópusambandinu, sem nú er í frosti, var að setja á fót samstarfsvettvang þar sem unnið var að losun þessara hafta svo að skilyrðið væri uppfyllt. Evrópusambandið dró sig út úr þeim vettvangi þegar aðildarviðræður voru settar á hilluna. Ef þeim verður slitið mun sambandið líkast til setja fram kröfu um að Íslendingar uppfylli það.
Endursamið um framlög í þróunarsjóðinn
Ísland borgar fyrir aðild að EES-svæðinu með ýmsum hætti. Stærstur hluti þeirrar borgunar fer í gegnum vettvang sem kallast Þróunarsjóður EFTA. Hann er oft nefndur verðmiðinn inn á innri markað ESB. Frá því að Ísland og Noregur skrifuðu undir EES-samninginn hafa þau greitt í þennan sjóð. Hann úthlutar svo fjármagni til þeirra fimmtán aðildarríkja sem fá greiðslur úr sjóðnum.
Samningar um framlög í sjóðinn eru teknir upp á fimm ára fresti. Síðast var samið um tímabilið 2009-2014. Framlög í hann voru áætluð um 155 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag á því tímabili. Af því framlagi var áætlað að Ísland greiddi tæplega fimm prósent, eða allt að sjö milljörðum króna. Á árinu 2014 greiðum við til að mynda 1,4 milljarða króna í sjóðinn samkvæmt fjárlögum. Liechtenstein borgar rétt yfir eitt prósent af kostnaðinum og Noregur tæplega 95 prósent.
Auk þess er til sérstakur Þróunarsjóður Noregs, sem þróunarríki ESB fá úthlutað út úr. Norðmenn borga um 125 milljarða króna inn í hann á tímabilinu. Norðmenn borga því um 260-270 milljarða króna fyrir aðgöngu að innri markaðnum.
Nú standa yfir viðræður um framlög Íslendinga og hinna EES-ríkjanna í þróunarsjóðinn. Viðbúið er, eins og alltaf hefur gerst, að framlögin muni hækka. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu mikla hækkun verður farið fram á.
Niðurstaða þessara viðræðna, sem búast má við að verði Íslendingum erfiðar, mun skipta mjög miklu máli fyrir íslensku þjóðina í framtíðinni.
Þessi grein er hluti af mun stærri umfjöllun um helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir sem birtist í Kjarnanum í síðustu viku.