Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna fordæma ógn Rússlands við stöðugleika í austurhluta Úkraínu, sem þeir segja að sé í trássi við alþjóðalög. Þessi ógn felur í sér að aðskilnaðarsinnar í Ukraínu fá ýmis vopn og annan búnað frá Rússum í trássi við samkomulag sem deiluaðilar á svæðinu féllust á í Minsk í september síðastliðnum. Utanríkisráðherrarnir fordæma einnig hernaðaruppbyggingu Rússa á Krímskaga og við Svarta hafið og kalla eftir því að rússnesk stjórvöld virði sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Þetta er meðal þess sem kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherranna 28 eftir að fundi þeirra vegna stöðunnar í Úkraínu lauk rétt í þessu. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, situr fundinn.
„Við köllum eftir því að Rússland snúi við hinni ólöglegu innlimun Krímskagans, sem við höfum ekki og munum ekki viðurkenna,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, þegar hann ávarpaði fréttamenn eftir að fundinum lauk.
Utanríkisráðherrar allra NATO ríkjanna eru samankomnir í Brussel. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, sést hér lengst til hægri á myndinni sem var tekin í morgun.
Sjálfstæð, fullvalda og stöðug Úkraína
Utanríkisráðherrar allra NATO-rikjanna 28 eru staddir í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag og á morgun til að funda um ýmis verkefni bandalagsins. Í morgun var fundað um ástandið í Úkraínu, aðgerðir Rússa þar og hver afstaða NATO til ástandsins sé. Pavlo Klimkin, utanríkisráðherra Úkraínu, átti upphaflega að vera viðstaddur fundinn í morgun en komst ekki í dag þar sem að búist er við að úkraínska þingið staðfesti nýja ríkisstjórn síðar í dag. Klimkin tók því þátt í fundarhöldunum í gegnum fjarskiptabúnað.
Niðurstaða fundarins var sú að NATO staðfestir fordæmingu sína á aðgerðum Rússa í Ukraínu og stuðning sinn við stjórnvöld í landinu.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á meðal fundarmanna.
Stoltenberg var brúnaþungur en ákveðinn þegar hann sagði að NATO „árrétti að sjálfstæð, fullvalda og stöðug Úkraína, sem staðfastlega styður lýðræði og réttarríki, er lykillinn að öryggi á Evrópu-Atlanshafssvæðinu[...]sem Úkraína er órjúfanlegur hluti af.“
NATO hefur sett upp fimm sjóði til að styðja stjórnvöld í Úkraínu í þeim átökum sem þar geisa. Í gegnum þessa sjóði veitir NATO stuðning við úkraínska herinn án þess að taka beinan þátt í átökunum.
Evrópusambandið og Bandaríkin hafa beitt Rússa efnahagsþvingunum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu. Þær aðgerðir, ásamt hríðlækkandi olíuverði í heiminum, hafa haft miklar efnahagslegar afleiðingar í Rússlandi.
Utanríkisráðherra Úkraínu var fjarverandi vegna þess að ríkisstjórn Úkraínu, sem mynduð er eftir kosningarnar í október, verður líklega staðfest á eftir.
Þórður Snær Júlíusson skrifar frá höfuðstöðvum NATO í Brussel.