Utanríkisráðuneytið upplýsti velferðarráðuneytið um framlagningu tillögu að viðauka við TISA-samninginn sem í felst mikil markaðsvæðing á heilbrigðisþjónustu. Þetta gerði ráðuneytið þann 6. janúar síðastliðinn. Um leið var boðað til samráðsfundar um TISA-viðræðurnar með öllum tengiliðum í fagráðuneytum til að fara yfir stöðu viðræðnanna. Fulltrúi velferðarráðuneytisins tók þátt í þeim fundi, en hann fór fram 14. janúar 2015. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu.
Innihald yfirlýsingarinnar er í andstöðu við það sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar sagði Kristján að enginn starfsmaður velferðarráðuneytisins hafi haft aðkomu að TISA-viðræðunum, hann hafi ekkert heyrt um tillögu um viðauka við samninginn sem í fólst að fella markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu undir hann og að afstaða Íslands til þessa, sem var opinberuð í frétt Kjarnans í gær, hafi ekki verið borin undir hann.
"Margt á huldu í utanríkisráðuneytinu"
Aðspurður um leyndina sem hvílir yfir samningsgerðinni og hvort hann væri sammála þeirri afstöðu utanríkisráðuneytisins að taka ekki þátt í viðræðum um viðaukann sagði Kristján: „Það er margt á huldu í utanríkisráðuneytinu og utanríkismálum. Það er alveg á hreinu.“ Hann hafi hins vegar engar forsendur til að tjá sig um eða taka afstöðu til máls sem hann þekki ekki „hætishót“ til.
Ísland er eitt þeirra 50 landa sem er aðili að TISA-viðræðunum, sem eiga að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Kjarninn birti í gær, í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP) og fjölmiðla víðsvegar um heiminn, ný gögn úr viðræðunum. Gögnunum var lekið til AWP sem hefur unnið að birtingu þeirra undanfarið. Hægt er að nálgast gögnin í heild sinni hér.
Samhliða fjallaði Kjarninn ítarlega um innihald gagnanna.
Svör Kristjáns Þórs stangast á við upplýsingarnar
Svör Kristjáns stangast algjörlega á við upplýsingar sem utanríkisráðuneyti Gunnars Braga Sveinssonar hefur óskað eftir að komið verði á framfæri. Um er að ræða upplýsingar sem snúa að samráði innan stjórnarráðsins um TISA-viðræðurnar, og "sérstaklega að því er varðar fréttir um viðauka um heilbrigðisþjónustu sem lagður er til af Tyrklandi."
Alls vill ráðuneytið koma á framfæri sex atriðum:
-
Ákvörðunin um að Ísland tæki þátt í TISA viðræðunum var tekin í tíð fyrri ríkisstjórnar af þáverandi utanríkisráðherra í desember 2012.
-
TISA viðræðurnar voru kynntar í ríkisstjórn með sérstöku minnisblaði í júní 2013. Einnig var fjallað um þær í skýrslu ráðherra til Alþingis um utanríkismál í mars 2014. Auk þess hefur verið sérstök umræða um þær á Alþingi og þær kynntar í utanríkismálanefnd.
-
Líkt og og ítrekað hefur komið fram opinberlega og má kynna sér frekar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, er viðhaft víðtækt samráð í tengslum við TiSA viðræðurnar og á það ekki síst við milli ráðuneyta og stofnana þeirra, þ.m.t. við velferðarráðuneytið.
-
Tyrkland hafði áður sent sambærilega tillögu um viðauka í fríverslunarviðræðum EFTA og Tyrklands sem send var til velferðarráðuneytisins þann 14. október 2014 til athugasemda. Svar velferðarráðuneytisins barst
20. október 2014.
5. Í nóvember 2014 voru fyrstu drög að viðaukanum send þátttökuríkjunum til umræðu í TiSA samningalotunni sem fór fram í byrjun desember 2014.
- Þann 6. janúar 2015 upplýsti utanríkisráðuneytið velferðarráðuneytið um framlagningu viðaukans og sendi texta hans. Var um leið boðað til samráðsfundar um TiSA viðræðurnar þann 14. janúar 2015 með öllum tengiliðum í fagráðuneytum til þess að fara yfir stöðu viðræðnanna. Fulltrúi velferðarráðuneytis tók þátt í þeim fundi þar sem þetta mál var rætt.